27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Hvað ætla ég nú að hafa í matinn í kvöld???
Þegar veður er með þeim hætti sem nú er og hugsunin hvað ætla ég nú að hafa í matinn í kvöld grípur mann er gott að fá hugmynd og þú færð hana hér á vefnum og alls ekki slæma.
Marína Sigurgeirsdóttir er kennari á matvælabraut Verkmenntaskólans á Akureyri og hefur starfað þar frá árinu 2002. „Kjötsúpuuppskriftin sem hér fer á eftir er kennsluútgáfan mín af gömlu góðu kjötsúpunni,” segir hún. „Nú fæst orðið gott lambagúllas í öllum matvöruverslunum og það er fínt hráefni í súpuna. Þessi súpa er alltaf jafn vinsæl bæði hjá nemendum mínum og einnig hjá fjölskyldunni. Hollur og góður kostur og sérlega þjóðleg á Þorranum,” segir Marína.
Íslensk kjötsúpa
1,5 l vatn
1 -2 lambateningar
500 g lambagúllas
1 tsk salt
2 msk hrísgrjón
½ gulrófa
4 kartöflur
1 gulrót
50 g hvítkál
smá bútur blaðlaukur
fersk steinselja, söxuð
Aðferð:
1. Hitið vatnið að suðu og setjið kjötkraft og salt út í ásamt kjötinu, sjóðið í 30-40 mín við vægan hita.
2. Hreinsið grænmetið. Skerið rófur og kartöflur í bita, brytjið gulrót, kál og lauk.
3. Látið hrísgrjónin og grænmetið út í pottinn.
4. Sjóðið súpuna áfram með kjötinu og grænmetinu í 20 -30 mínútur.
5. Stráið saxaðri steinselju yfir þegar súpan er borin fram
Njótið vel.