Húsvískur kúreki á krossgötum
Húsvíkingurinn Jón Oddi Víkingsson hefur marga fjöruna sopið en flestir þekkja hann líklega sem kántrýsöngvarann Johnny King sem gerði garðinn frægan um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Nú kemur kántrýstjarnan aftur fyrir augu almennings, en í þetta sinn í nýrri heimildamynd eftir Árna Sveinsson; Kúreki norðursins, sem var frumsýnd í Bíó Paradís á laugardag.
Kúreki norðusins, sagan af Johnny King eftir Árna Sveinsson, vann Ljóskastarann, dómnefndarverðlaun Skjaldborgar á Patreksfirði síðastliðinn maí. Myndin hlaut gríðar góðar undirtektir meðal áhorfanda þegar hún var sýnd í fyrsta sinn á þeirri hátíð.
Hún verður tekin til almennra sýninga í kjölfar frumsýningar í Bíó Paradís. Myndin verður jafnframt sýnd á Selfossi og í Sambíóunum Akureyri.
Andri Freyr Viðarsson, meðframleiðandi, betur þekktur sem Andri á flandri og Leikstjóri myndarinnar, Árni Sveinsson. Mynd: Republik.
Röð tilviljana
Árni Sveinsson, leikstjóri myndarinnar sem hefur getið sér gott orð fyrir myndir eins og Óli Prik (2015), Í Skóm Drekans (2002) og Backyard (2010), segir í samtali við Vikublaðið að röð tilviljana hafi ráðið því að saga þessarar gömlu kántrýstjörnu varð að viðfangsefni heimildarmyndar í fullri lengd. En þetta byrjaði allt saman hjá félaga Árna, Andra Frey Viðarssyni, útvarpsmanni með meiru.
„Já, þetta var bara röð tilviljana. Andri Freyr sem er meðframleiðandi að myndinni og minn helsti makker, hann tók á móti Johnny fyrir tilviljun á rás 2 í viðtal árið 2016,“ segir Árni og bætir við að Andri hafi viljað taka þetta lengra og hringt í sig enda verið forvitinn um þessa gömlu kántrýstjörnu frá barnsaldri þegar hann var að alast upp á Reyðarfirði.
Cash, Rogers og King
„Pabbi Andra á stórt plötusafn og þar voru nokkrar kántrý plötur með Johnny Cash, Kenny Rogers og svo með sjálfum Johnny King. Andri hélt þess vegna að Johnny King væri einhver alþjóðlegur kántrý kóngur. Hann kemst svo að því þegar hann sér heimildamyndina Kúreka Norðursins eftir Friðrik Þór að þetta er Íslendingur. Þannig að hann var alltaf með smá taug til hans,“ útskýrir Árni og bætir við að myndin sé búin að vera í átta ár í bígerð.
Kónginum fylgt í átta ár
Árni segir að hægt og rólega hafi hugmyndin undið upp á sig og orðið að þessari gríðarlega einlægu og persónulegu mynd, þar sem ást, tónlist og vinskapur kemur mikið til sögunnar.
Á átta árum var fylgst með Johnny, ferðast með honum og mörgum dögum eytt saman. Í myndinni opnar Johnny King sig á einlægan átt og segir m.a. frá sambandi sínu við Hallbjörn í Kántríbæ og lætur í ljós sínar skoðanir á kúrekaæðinu í kjölfar myndar Friðriks Þórs Friðrikssonar (Kúrekar Norðursins). Hann rifjar upp erfiða æsku sem og gullaldarár sín, auk þess að skyggnst er inn í hvernig hann upplifir samtímann. Hvar er Johnny King staddur í dag?
„Fyrst og fremst er saga þessa manns bara afar áhugaverð. Við kíkjum aðeins til baka og skoðum æsku Johnnys og hans uppruna. Svo er þessu kúreka tímabili gerð góð skil. Svo erum við líka að fylgja honum á þessu átta ári tímabili sem við skutum. Þar gengur á ýmsu bæði súrt og sætt. Þetta er svona karakter skoðun þessa kúreka sem stendur svolítið á krossgötum og veit ekki alveg hvað hann á að gera næst,“ útskýrir Árni.
Gamall íslenskur kántry-söngvari sem er á krossgötum í lífinu gerir eina loka tilraun til að fara aftur á bak. En um leið þarf hann að gera upp fortíðina sem er eins og myllusteinn um háls hans. Mynd: Republik.
Vann hug og hjörtu á Skjaldborg
Eins og fyrr segir stakk Kúreki norðursins; saga Johnny King af með Ljóskastarann, dómnefndarverðlaun Skjaldborgar. „Myndin nálgast sársaukafulla reynslu af hugrekki og virðingu. Hún vinnur á aðdáunarverðan hátt með væntingar áhorfenda og sagan öðlast dýpri merkingu þegar viðfangsefnið nær óvænt valdi á eigin sögu. Áhorfandinn er skilinn eftir með stórar spurningar um áhrif áfalla, velgengni, karlmennsku og ekki síst leitina að hamingjunni,“ segir í umsögn dómnefndar.
Áhorfendur hátíðarinnar tóku myndinni einnig mjög vel en í umsögn eins áhorfandans segir: „En ástæðan fyrir því að hún vann (á Skjaldborg) – og það verðskuldaðan sigur – er mjög einföld: Það er ein sena í þessari mynd sem er sterkari, þversagnakenndari og óvæntari en nokkur sena sem þið eigið eftir að sjá í bíó í ár – og um leið átakanlega sönn.”
Framleiðendur eru Árni Þór Jónsson, Halldór Hilmisson, Ada Benjamínsdóttir og Lárus Jónsson. Myndin var framleitt með styrk frá Kvikmyndamiðstöðinni og RÚV. Klipping var í höndum Stefaníu Thors og Úlfhildur Eysteinsdóttir hljóðvann myndina. Auk tónlistar Johnny King í myndina þá var það enginn annar en KK sem bjó til stef og tónlist.