Húsnæði fundið fyrir Kvennaathvarfið- Mikill léttir

Búið er að finna húsnæði undir starfsemi Kvennaathvarfsins á Akureyri. Mynd á vefsíðu Akureyrarbæjar…
Búið er að finna húsnæði undir starfsemi Kvennaathvarfsins á Akureyri. Mynd á vefsíðu Akureyrarbæjar.

„Þetta er mikill léttir og mikil gleði að málið er nú í höfn,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins en hún skrifaði fyrr í dag undir samning um leigu á húsnæði á Akureyri. Samningurinn er til þriggja ára.

Kvennaathvarfið hefur verið með starfsemi á Akureyri í rúm fjögur ár og alltaf í leiguhúsnæði. Samningur um núverandi húsnæði rennur út um næstu áramót og gekk lengi vel ekki sem skyldi að finna hentugt húsnæði.

Linda Dröfn sagði Akureyrarbæ hafa verið Kvennaathvarfi innan handar við húsnæðisleitina og það hafi skipt máli. „Sem betur fer endaði þetta vel og við fundum að lokum íbúð á almennum markaði sem hentar okkar starfsemi fullkomlega,“ segir hún.

„Nú munum við fara af stað í viðræður við sveitarfélög á Norðurlandi um að taka áfram þátt í leigukostnaði en það hafa þau gert undanfarin ár.“

Alþýðusamband Norðurlands samþykkti á þingi á dögunum að gefa Kvennaathvarfinu 500 þúsund krónur í styrk til starfseminnar og skoraði af því tilefni á sveitarfélög í fjórðungnum að leggja sitt af mörkum til starfseminnar.

 

Nýjast