Húsavík - Ráðstefna um aðgerðamál

Tæplega 60 manns sóttu ráðstefnuna.
Tæplega 60 manns sóttu ráðstefnuna.

Á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra er sagt frá ráðstefnu sem haldin var  á Húsavík um nýliðna helgi  með þátttöku fulltrúa frá öllum viðbragðsaðilum á Norðurlandi eystra hvað almannavarnir snertir.

Í frétt frá embættinu segir:

Það að vera undirbúin, skipulagður, með þekkingu og þéttriðið net viðbragðsaðila þegar á þarf að halda er ekki sjálfgefið né hrist fram úr erminni á einni nóttu þegar samstarf allra viðbragðsaðila er undir til þjónustu fyrir íbúa landsins sem og aðra.
Við hér á Norðurlandi eystra höfum á undanförnum árum lagt mikinn metnað í það að viðbragðsaðilar séu í nánum tengslum og samskiptum og teljum við okkur vera mjög öflug á því sviði en það þarf líka að viðhalda því og efla jafnt og þétt.
 
Nú um helgina var haldin ráðstefna á Húsavík með þátttöku fulltrúa frá öllum viðbragðsaðilum á Norðurlandi eystra hvað almannavarnir snertir. Yfirskriftin var "Ráðstefna um aðgerðamál" og var kostnaðurinn við þátttöku allra aðila greiddur af Almannavarnanefnd í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.
Þátttakendur komu frá lögreglunni, svæðisstjórnum Landsbjargar á svæðum 11 og 12, RKÍ, HSN, SAk, Norðurorku, öllum slökkviliðum í umdæminu og fulltrúum frá almannavarnanefndinni sjálfri. Samtals voru þetta tæplega 60 manns.
 
Fyrirlesarar komu úr röðum þessara aðila og þá voru einnig m.a. gestafyrirlesarar frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Landsbjörg, Neyðarlínunni, Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu og Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra.
Farið var yfir aðgerðamál í víðu samhengi sem og ýmsar nýjungar sem hvað helst varða tæknilega þætti í samskiptum og miðlun upplýsinga.
Þess má geta að á meðan á ráðstefnunni stóð reyndi ágætlega á þetta samstarf okkur þar sem að eftir hádegi á föstudaginn fór rúta út af veginum við Ólafsfjörð með 25 farþega sem þurftu aðhlynningu og þjónustu í kjölfarið og var það leyst á farsælan hátt. Þá gaf Veðurstofan út appelsínugula vindaviðvörun nú um helgina og þurftu viðbragðsaðilar að stilla saman strengi sína hvað það varðar.
 
Á ráðstefnunni var formlega afhentur bíll sem nota á fyrir vettvangsstjórn í verkefnum í umdæminu. Bílinn gaf embætti LSNE en svæðisstjórn á svæði 11 mun sjá til þess að hann verði ávallt til þjónustu reiðubúinn og mæta með hann í verkefni. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri, og Reimar Viðarsson, formaður svæðisstjórnar á svæði 11, undirrituðu samkomulag þess efnis við hátíðlega athöfn.

Nýjast