20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hringborð norðurslóða þéttsetið fulltrúum Háskólans á Akureyri
Háskólinn tók þátt í Arctic Circle Assembly eða Hringborði norðurslóða dagana 17.-19. október síðastliðinn. HA var með glæsilegan hóp fulltrúa sem tók þátt í pallborðum, málstofum, umræðum og fundum ásamt því að kynna HA á bás í Hörpu þar sem ráðstefnan fór fram. Skólinn tekur mikinn þátt í samstarfi þeirra stofnana hérlendis sem sinna norðurslóðamálum enda eru þær staðsettar að stærstum hluta á háskólasvæðinu. Þá mun HA sameinast Stofnun Vilhjálms Stefánssonar um áramótin, en sú stofnun hefur verið öflug á sviði norðurslóðarannsókna allt frá stofnun.
Þá er áhugavert að sjá að þátttakendur skólans koma úr mismunandi deildum og greinilegt að norðurslóðamál eru þverfagleg enda snerta rannsóknir á norðurslóðum alla þætti daglegs lífs.
Tom Barry, forseti Hug- og félagsvísindadeildar, tók þátt í málstofum með framsögu varðandi samstarf Kína og Norðurlanda á norðurslóðum og þróun norðurslóðarannsókna og samstarf í gegnum ICARP. Tom segir að Hringborð norðurslóða sé lykilviðburður ársins fyrir þau sem starfa í norðurslóðamálum til að hitta núverandi og mögulega samstarfsaðila. Þá er þetta þverfaglegur vettvangur vísinda, stefnumótunar og viðskipta, þar sem hugmyndir og áætlanir um nýtt samstarf og áframhaldandi verkefni eru ræddar.
Norðurslóðaháskólinn býður í heimsókn á næsta ári
„Með tilliti til áherslna í stefnu HA sem norðurslóðaháskóla og hlutverks Akureyrar í stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem miðstöðvar sérfræðiþekkingar í málaflokknum, er mikilvægt að HA sé sýnilegur, bæði með því að kynna rannsóknir HA og varðandi tækifæri til þátttöku í nýjum verkefnum og styrkjum,“ segir Tom um mikilvægi þess að HA taki virkan þátt og nefnir dæmi: „Í ár hófust umræður um að skipuleggja fund allra þematengdra neta háskóla norðurslóða á Akureyri næsta ár. Það verður virkilega spennandi og mikilvægt verkefni.“
Þá var Nansen prófessorinn Romain Chuffart með framsögu í málstofu sem laut að stefnu Evrópusambandsins um málefni norðurslóða ásamt þeim lagalegu viðfangsefnum sem tengjast hafrétti og alþjóðarétti á norðurslóðum.
Þá var skólinn með tvo fulltrúa með framsögu í málstofu sem fjallaði um samstarf Íslands og Bretlands. Audrey Louise Matthews, lektor við hjúkrunarfræðideild og Ásta Margrét Ásmundsdóttir, aðjúnkt við Auðlindadeild fjölluðu um svifryks- og frárennslisvöktun á Akureyri. Verkefnið var styrkt af sérstökum samstarfssjóði milli Íslands (RANNÍS) og Bretlands með áherslur á rannsóknir á norðurslóðum.
Fleiri voru á svæðinu frá skólanum og sat Áslaug Ásgeirsdóttir rektor margar málstofur og fundi ásamt því að spjalla við þátttakendur um málefni ráðstefnunnar varðandi frekari möguleika í samstarfi og áframhaldandi rannsóknum. Einnig voru stúdentar frá Polar Law og skiptinemar við háskólann ötulir sjálfboðaliðar, bæði fyrir Arctic Circle og á bás HA.
Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður miðstöðvar alþjóðasamskipta og Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor (fyrir miðju myndar) hittu á fulltrúa Southern Connecticut State University og ræddu samstarfsmöguleika.
Starfsfólk HA í góðum gír
Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor með Ólafi Ragnari Grímssyni, hvata- og forystumaður Hringborðs norðurslóða.