27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Horft til þess að koma upp biðstöð fyrir strætó á svæði við Akureyrarvöll síðar
mth@vikubladid.is
Andri Teitsson formaður Umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar segir að til lengri tíma litið hefði ráðið áhuga fyrir að kanna möguleika á að gera sameiginlega aðstöðu fyrir bæði innanbæjar-, og landsbyggðarstrætó, hópferðabíla, leigubíla og fleiri á svæðinu þar sem Akureyrarvöllur er nú, enda fyrirséð að knattspyrnuiðkun verði hætt þar innan fárra ára.
Meirihluti umhverfis- og mannvirkjaráðs hefur samþykkt að hefja framkvæmdir við aðstöðu strætisvagna Akureyrar og bílstjóra þeirra í miðbænum en rýma þarf lóðina við Hofsbót 2 vegna fyrirhugaðra framkvæmda á lóðinni. Kostnaður við þessa bráðabirgðaframkvæmd er um 15 milljónir króna. Telur ráðið óheppilegt að ekki liggi fyrir hver framtíðaráform eru varðandi akstur og aðstöðu fyrir strætó í miðbænum, en nú leiðir til þess að verja þarf fjármunum í bráðabirgðalausn.
Tímabundin ráðstöfun
Andri segir að Akureyrarbær hafi þegar úthlutað lóðinni við Hofsbót 2 og framkvæmdir hefjist þar á næstu vikum eða mánuðum. „Það þýðir að hnika þarf lítillega til akstursleiðum og aðstöðu strætó í miðbænum. Þessi ráðstöfun er tímabundin og hefur þann tilgang að tryggja rekstur strætó á næstu mánuðum,“ segir hann.
Væntir Andri þess að tækifæri skapist til að skipuleggja svæðið á Akureyrarvelli frá grunni, fyrir íbúðir, verslanir, þjónustu og afþreyingu auk þess að setja upp samgöngumiðstöð. „Ég bind miklar vonir við að þannig náum við að tengja saman miðbæinn og Glerártorg og skapa þannig eina samfellu með grósku og mannlífi,“ segir hann.
Næsta lota í endurnýjun verði rafmagnsvagnar
Fjórir af þeim strætisvögnum sem Akureyrarbær er með í rekstri gagna fyrir metani en nú stendur til að festa kaup á rafmagnsstrætisvagni. Hann kostar á bilinu 75 til 80 milljónir króna.
Andri Teitsson formaður Umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar segir að jákvætt sé út frá umhverfissjónarmiði að reka vagna sem ganga fyrir metani.„Það hefur hins vegar komið í ljós að afkastageta og áreiðanleiki í vinnslu á metani frá gömlu sorphaugunum á Glerárdal er aðeins minni en reiknað var með,“ segir hann og það sé kveikjan að því að kanna möguleika á að næsta lota í endurnýjun á strætisvögnum verði rafmagnsvagnar.
Dýrari í innkaupum en ódýrari í rekstri
Hann segir að ráðið hafi verið í sambandi við Stætó á höfuðborgarsvæðinu þar sem töluverð reynsla er komin á rekstur slíkra vagna, og þeir virðast lofa góðu. „Rafmagnsvagnar eru dýrari í innkaupi en metan- eða dísilvagnar en hins vegar ódýrari í rekstri. Áform okkar eru að kaupa þrjá rafmagnsvagna á næstu þremur árum en það er háð því að okkur takist að finna rými í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins á því tímabili,“ segir hann.
Umhverfis- og mannvirkjaráð hefur einnig samþykkt að leita eftir verði í tvær bifreiðar fyrir ferliþjónustuna sem gangi fyrir umhverfisvænum orkugjafa og stefna á að önnur komi inn í reksturinn á þessu ári og önnur á því næsta. Kostnaður við kaup á ferlibifreið er áætluður um 18 til 20 milljónir króna, þannig að fjármagnsþörf vegna kaupanna næstu tvö ár er um 40 milljónir.