Hollywood klassík á svið á Húsavík

Nemendur 10. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík sýna 10 hluti í Samkomuhúsinu. Myndir/epe
Nemendur 10. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík sýna 10 hluti í Samkomuhúsinu. Myndir/epe

Menningin á Húsavík lifir góðu lífi en á laugardag frumsýnir 10. Bekkur Borgarhólsskóla leikverkið 10 hlutir í Samkomuhúsinu – en það er byggt á hinni sívinsælu bíómynd, 10 Thing I Hate About You.

Karen Erludóttir sér um leikstjórn en hún hefur alið upp ungmenni Húsvíkur í leiklist, mörg undanfarin ár og unnið ómetanlegt starf. Hún segir í samtali við Vikublaðið að undirbúningur fyrir sýninguna sé búinn að ganga vonum framar og krakkarnir séu að verða mjög spenntir að stíga á svið fyrir fullan sal áhorfenda.

Verkið valið lýðræðislega

10 hlutir 3

„Ég hitti 10.bekk fyrst snemma í haust og fékk að vita hversu margir myndu vilja leika, hverjir myndu treysta sér í að syngja og hverskonar leikrit þau vildu setja upp. Nokkrum vikum seinna mætti ég með bunka af leikritum sem hentaði þeirra hópi hvað varðar fjölda og tikkuðu í þau box sem þau óskuðu eftir. Ég sagði þeim frá öllum leikritunum í grófum dráttum og svo hófst atkvæðagreiðsla,“ útskýrir Karen og bætir við að 10 hlutir hafi að lokum orðið fyrir valinu.

Verzlunarskóli Íslands hafði sett verkið upp árið 2021 svo Karen taldi það öruggt að handrit að myndinni, útfært fyrir leikhús, væri til,- en það þurfti að hafa aðeins meira fyrir hlutunum.

Sat límd við tölvuna

„Ég hafði samband við höfundinn að því handriti, Helga Grím Hermansson, sem tók mjög vel í þessa hugmynd mína og sendi mér handritið sitt um hæl. Hann benti mér þó á að þetta verk væri sennilega ekki alveg það sem við vorum að leita að. Því að þó í grunninn sé þetta sama saga og í myndinni gerðu þau söguna mikið til að sinni eigin.  Þau voru með aðra karaktera, allskonar sögutwist sem eru ekki í myndinni og mikill Verzló einkahúmor í handritinu sem hvorki hentaði 10. bekk hér á Húsavík né var verkið sem þau voru að vonast eftir,“ segir Karen og bætir við að það hafi ekki komið til greina að skipta um verk enda krakkarnir orðnir mjög spenntir fyrir sögunni. Karen gekk því sjálf í málið og endurskrifaði handritið.

„Ég sá að ég gat notað örfá samtöl úr handritinu hans Helga Gríms, sem ég gerði, notaðist svo við handrit kvikmyndarinnar og saumaði það saman ásamt því að aðlaga ýmislegt að íslensku samfélagi. Eins þurfti ég að breyta sumum atriðum svo sagan gengi upp á sviði, þar sem ýmislegt er hægt í kvikmyndum sem er ekki hægt að framkvæma á sviðinu. Eftir þónokkra daga þar sem ég sat límd við tölvuna var handritið loksins klárt og tilbúið í fyrsta samlestur,“ segir Karen sem getur vart beðið eftir frumsýningu.

„Nú er það allt að lifna við þar sem krakkarnir hafa lánað hverjum karakter sína rödd og standa sig frábærlega,“ segir hún.

Geta ekki beðið eftir frumsýningu

10 hlutir 4

Uppsetningin er stór í sniðum fyrir skólaleikrit en alls stíga 25 nemendur á svið og enn fleiri koma að sýningunni með öðrum hætti s.s. tæknimálum, vinnu við búninga. Þá þarf að búa til leikskrá og margt fleira. Það er vart hægt að finna meira gefandi og hagnýtara nám en leikslistina og uppsetningu á viðamiklu verki.

„Þau hafa líka fengið gífurlega góðan stuðning frá Hörpu Ásgeirs, umsjónakennara þeirra, sem er alltaf boðin og búin til að gera það sem þarf og peppar þau áfram,“ segir Karen og bætir við að þetta sé sýning sem engin ætti að láta framhjá sér fara.

„Nú er æfingaferlið, sem er búið að vera stórkostlegt, að klárast þar sem frumsýning er núna á laugardaginn næst komandi. Mig hlakkar mikið til að fá áhorfendur í salinn og sjá gleðina í krökkunum þegar þau fá loksins að sýna almenningi afrakstur allrar vinnunnar undanfarinna vikna, það er það allra besta við þetta starf,“ segir Karen að lokum.

Nýjast