20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hnoðri í norðri komin í jólagírinn
Hnoðri í norðri sem er sjálfstætt starfandi sviðslistahópur sem setur upp ævintýraleg tónlistarleikverk sýnir verkið Ævintýri á aðventunni í samstarfi við Handbendi á Hvammstanga 3. desember og á grunnskólasýningum Kópavogs í Salnum 4. desember. Þá verða sýningar í samstarfi við Leikfélag Akureyrar í Samkomuhúsinu helgina 9. og 10. desember.
Fyrir jólin í fyrra fór hópurinn með frumsamda gaman-jóla-öróperu, Ævintýri á aðventunni, í grunnskóla á Norðurlandi í samstarfi við List fyrir alla og með hjálp góðra styrkja, og fluttu fyrir yngstu börnin (1.-4. bekk). Var það hluti af því að reyna að kynna þetta listform fyrir yngstu kynslóðinni, en auðvitað er þá mikill kostur að verkið sé sneisafullt af húmor og tónlistin grípandi og skemmtileg. Hópurinn sýndi 25 sýningar í grunnskólum allt frá Vopnafirði til Hvammstanga á 8 dögum. Fyrir þetta ævintýri fékk Hnoðri í norðri hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar síðastliðið vor og í ágúst var þeim boðið, ásamt 12 öðrum hópum víðs vegar að úr heiminum, að taka þátt í alþjóðlegu listahátíðinni Bitolino í Norður-Makedóníu sem tileinkuð er sviðslistum fyrir börn og ungmenni. Verkið var síðan einnig sýnt á sviði MA á Akureyrarvöku í sumar. Hópurinn hefur því verið í jólaskapi í allt sumar!
Í Ævintýri á aðventunni koma fyrir misyndælar en rosa jólalegar persónur: Stúfur (sem heitir reyndar réttu nafni Sigurður), Jólakötturinn (sem reyndi einu sinni að verða vegan), Grýla (prumpufýla) og systurnar Gunna (á nýju skónum) og Solla (á bláum kjól), en þau eiga það auðvitað öll sameiginlegt að fara eftir jólalögunum, sem mjög mikilvægt er að allir hlýði.
Nýtt verk hópsins mun líta dagsins ljós í febrúar, en það er nýársverkið Skoffín og skringilmenni, sem nýtir allskonar þjóðlegt efni og hjátrú sem byggingarefni og verður einskonar gaman-hryllings ópera. Vonir standa til að nægir styrkir náist til að sýna verkið fyrir elsta stig allra grunnskóla á Norðurlandi sem og að troða upp í nokkrum félagsheimilum í landshlutanum með aðeins kabarettkryddaðri fullorðins útgáfu af verkinu.
Hnoðri í norðri samastendur af tón- og leikskáldinu Þórunni Guðmundsdóttur, leikstjóranum Jennýju Láru Arnórsdóttur, búningahönnuðinum Rósu Ásgeirsdóttur, Jóni Þorsteini Reynissyni harmonikkuleikara og söngkonunum Erlu Dóru Vogler mezzosópran og Björk Níelsdóttur sópran, en Björg Marta Gunnarsdóttir mun leysa Rósu af í fæðingarorlofi.