Hjól atvinnulífsins farin að snúast
Nú þegar veðrið hefur leikið við okkur og bansett veiran er hætt að halda okkur í gíslingu er ekki laust við að geðið lyftist og aukinnar bjartsýni gæti. Maður leyfir sér loks að trúa á framtíðina.
Þetta á ekki síst við í atvinnumálum í Norðurþingi en á þriðjudag fór fram íbúafundur á Fosshótel Húsvík þar sem áform um grænan iðngarð á Bakka voru kynnt.
Fjölgum eggjunum
Kófið reiddi Norðurþingi bylmingshögg í atvinnumálum með tilheyrandi þrengingum og áskorunum í rekstri hins opinbera. Átökin við veiruna ætti þó að kenna okkur mikilvæga og góða lexíu, þ.e. að fjölga eggjunum í körfunni.
Mikilvægasti atvinnuvegurinn á Húsavík er tvímælalaust ferðaþjónustan og iðnaðarstarfsemin á Bakka. Hvort tveggja má segja að hafi hrunið í kófinu þó ferðaþjónustan hafi kannski komið ögn betur út úr því en óttast var í fyrstu.
Lokun kísilverksmiðju PCC á Bakka var lamandi. Fjöldi fólks missti vinnuna, verktakar sem þjónusta verksmiðjuna misstu verkefni og hafnarsjóður varð fyrir gríðarlegu tekjutapi. Nú er verksmiðjan að ná vopnum sínum á ný og stutt í að mötun hefjist í síðari ofninum.
Áformin sem kynnt hafa verið um grænan iðngarð á Bakka eru áhugaverð og maður er farinn að leyfa sér að vona og trúa því að hér sé eitthvað verulega jákvætt að fara að gerast. Og auðvitað fagna ég því að áherslurnar í þessum áformum séu grænar.
Viðkomustaður eða áfangastaður?
Ferðaþjónustubær er eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar Húsavík á í hlut. Hvalaskoðunarfyrirtækin hafa séð til þess að bærinn hefur iðað af lífi á sumrin undanfarin 20 ár eða svo og þá er gaman að vera Húsvíkingur. En ég ætla að leyfa mér að segja að ferðaþjónustan í bænum hafi verið fremur einhæf. Hvalaskoðun á sjó og landi ásamt frábærum veitingastöðum, nokkrum mögnuðum rótgrónum verslunum, falleg kirkja og safn. Einhvern vegin svona var úrvalið af afþreyingu í bænum. Enda hefur Húsavík ávallt verið viðkomustaður ferðamanna, aldrei áfangastaður.
Þetta gæti þó verið að breytast; Húsavík hefur upp á sífellt meira að bjóða sem áfangastaður. Sjóböðin hafa gríðarlegt aðdráttarafl, hér er fyrsta flokks ráðstefnuhótel. Opnun Demantshringsins og nálægð við margar af fegurstu náttúruperlum landsins býður upp á tækifæri til sóknar. Markaðssetning ferðaþjónustunnar getur því hæglega farið að snúast um það að ferðamenn stoppi lengur í bænum en þeir hafa gert hingað til.
Skíðasvæði
Þá hafa verið umræður um skíðasvæðið við Reyðarárhnjúk og þær raddir hafa heyrst að sveitarfélagið ætti að byggja svæðið upp til að vera samkeppnishæft við Hlíðarfjall á Akureyri. Það væri göfugt verkefni sem myndi gera Húsavík að vinsælum áfangastað allt árið. Það er þó ekki raunhæft að Norðurþing sé tilbúið til að ráðast í slíkar fjárfestingar á næstu árum. En ef vel tekst til með uppbyggingu á Bakka, þá er aldrei að vita hvað gerist í kjölfarið, því öflugt og fjölbreytt atvinnulíf getur haft margfeldisáhrif út í samfélagið og fjárfestingagetu hins opinbera og einkaaðila.
Verum jákvæð.
Egill P. Egilsson