20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar um viðtal Vikublaðsins við Teit Guðmundsson
Viðtal Vikublaðsins í gær við Teit Guðmundsson forstjóra Heilsuverndar sem rekur Heilsuvernd hjúkrunarheimili á Akureyri hefur vakið mikla athygli. Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar gerir viðtalið að umfjöllunarefni í stöðufærslu á Facebook og er greinlega hugsi.
,, Það er ansi sérstakt að lesa í Vikublaðinu viðtal við Teit Guðmundsson, forstjóra Heilsuverndar sem rekur Heilsuvernd hjúkrunarheimili á Akureyri, þar sem hann segir að margra mánaða tafir á framkvæmdum við endurbætur á Hlíð, megi reka til þess að ríki og sveitarfélag hafi ekki komið sér saman um kostnaðarskiptingu verkefnisins.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég, sem bæjarfulltrúi á Akureyri hef fengið, hefur málið verið alveg skýrt um langa hríð, Akureyrarbær muni einfaldlega greiða sinn lögbundna hlut í umræddum endurbótum."
,,Annað hvort er um misskilning að ræða, eða einhver er ekki að segja satt og rétt frá“ segir Hilda Jana í áður nefndri færslu.
Í samtali við Vikublaðið sagðist hún hafa ,,óskað eftir að málið yrði sett á dagskrá næsta bæjarráðsfundar, þar sem farið yrði yfir stöðu þess og fyrirliggjandi gögn.”