Hið fullkomna stjórnarfar

Hreiðar Eiríksson átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag
Hreiðar Eiríksson átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag

Mannkynið hefur gert tilraunir með margskonar stjórnarfar. Þetta lærdómsferli hefur því miður kostnað blóð og mannfórnir en það hefur fært okkur vitneskjuna um að lýðræði er besta stjórnarfarið sem mannkynið hefur þekkt. Ekkert stjórnskipulag hefur fært mannkyni jafn miklar framfarir, öryggi, réttlæti og almenna hagsæld en lýðræðið.

Reiðan á óreiðunni

Lýðræðissamfélagið er knúið áfram af vilja almennings. Og þessi vilji almennings verður til sem afleiðing þeirra upplýsinga sem menn taka við og miðla sín á meðal. Ekkert lýðræði getur þrifist án skoðana- og tjáningarfrelsis. Mannréttindi og lýðræði geta ekki án hvors annars verið. En vegna ólíkra skoðana og hagsmuna getur samtal í lýðræðisþjóðfélagi á stundum orðið óreiðukennt og einkennst af glundroða og stundrungu. Þetta verðum við þó að þola og halda samtalinu gangandi, því að það er lífsblóð lýðræðisins. Sterk stjórnarskrá leiðir okkur fram á við og íslenska stjórnarskráin hefur margsannað styrk sinn. En stjórnarskráin þolir ekki hvað sem er og stjórnskipanina þarf að verja.

,,Hafðu vit á því að þegja"

Mér til undrunar las ég það í vikunni að lögreglustjóri einn ákærði tilfallandi bloggara fyrir að tjá skoðanir sínar á námsefni og kennslu í leik- og grunnskólum. Ég velti því fyrir mér hvernig ákæran samrýmist þeirri skyldu lögreglu að standa vörð um stjórnskipan landsins. Og svo fór ég að velta því fyrir mér hvort það væri ekki vissara að fá þessa litlu grein lesna yfir og samþykkta af ákæruvaldinu áður en ég sendi hana til birtingar. Þið kannski sendið mér bókina hans Björns Jóns Bragasonar um Seðlabankann og Samherja ef ég þarf að eyða jólunum á Hólmsheiðinni.

Nýjast