„Hér er allt morandi í hæfileikum“

Innréttingar nýja tökubíls Castor Miðla eru sérsmíðaðar af David Schlechtriemen, sem aðstoðaði þá Ca…
Innréttingar nýja tökubíls Castor Miðla eru sérsmíðaðar af David Schlechtriemen, sem aðstoðaði þá Castor drengi við hönnun og útfærslu. Myndir/ Aðsendar.

Kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Castor Miðlun sem stofnað var á síðasta ári af þeim Örlygi Hnefli Örlygssyni og Ingimari Eydal Davíðssyni dafnar vel og þeir félagar huga að fleiri landvinningum á þessu ári.

Castor

Castor miðlun kom með stormi inn á markaðinn í fyrra enda stofnað af tveimur stórhuga ævintýramönnum sem hugsa í lausnum. Þeir keyptu allan tækjabúnað úr þrotabúi sjónvarpsstöðvarinnar N4 og verkefnin hafa verið fjölbreytt. Nú er félagið að taka í notkun nýjan og fullkominn kvikmyndatökubíl.

Ég er að koma norður í næstu viku en við erum að ljúka smíði á nýja upptökubílnum okkar. Við erum líka um helgina að fara forsýna heimilda- og tónleikamyndina  í félagsheimilinu á Raufarhöfn sem við gerðum í tengslum við tónleika Skálmaldar í Heimskautagerðinu. Þannig að það er ýmislegt á döfinni hjá okkur,“ segir Ingimar, framkvæmdastjóri félagsins.

Allt morandi í hæfileikum á Norðurlandi

Ingimar kveðst ánægður með árið í fyrra og kveður allar raddir í kútinn þess efnis að það sé of mikil bjartsýni að reka framleiðslufyrirtæki af þessum toga úti á landi.

„Við erum alveg sannfærðir um að það er góður grundvöllur og full ástæða til að reka framleiðslufyrirtæki úti á landi. Við tvíefldumst í þeirri skoðun þegar við fórum á stúfana og fundum hvað var óskaplega mikið af hæfileikafólki í bransanum sem býr fyrir Norðan. Hér er allt morandi í hæfileikum. það er fullt af kvikmyndagerðarfólki, klippurum, tökufólki og allskonar skapandi snillingum sem búa hér á svæðinu og þá er svo auðvelt að gera sniðuga hluti með allt þetta hæfileikafólk í kringum okkur,“ segir Ingimar.

Koma landsbyggðinni á kortið

Og nú eruð þið að taka nýjan tökubíl í notkun er þetta bara eins og kvikmyndaver á hjólum?

„Það má eiginlega segja það. Þetta er sendibíll sem er búinn allri nýjustu tækni til þess að geta farið í beina útsendingu eða upptöku hvar og hvenær sem er. Það hefur ekki verið svona bíll á Norðurlandi síðan Samver sáluga átti svona upptökubíl og notaði hann mjög mikið. Hann var held ég keyptur til landsins árið 1987 ef ég man rétt og var í notkun alveg þangað til á fyrstu árum N4 en hann var mikið notaður og lengi,“ útskýrir Ingimar og bætir við að bíllinn muni nýtast við upptökur af alls konar viðburðum.

Castor miðlar

„Það er náttúrlega fyrst og fremst íþróttirnar sem við horfum til að sinna  betur. Við erum með svo ofboðslega góð lið hér fyrir norðan, Tindastóll í körfunni á Króknum. KA komið í hóp bestu fótboltaliða landsins og svo mætti áfram telja,“ segir Ingimar og bætir við að stefnan sé tekin á að vinna meira efni á landsbyggðinni fyrir stóru sjónvarpsstöðvarnar.

„Við höfum fundið fyrir því í fortíðinni að landsbyggðarliðunum var minna sinnt heldur en þeim sem eru á höfuðborgarsvæðinu af því það kostar helling að senda mannskap og búnað að sunnan. Í rauninni var hugsunin með þessu hjá okkur að útrýma þessari afsökun úr bókum stóru sjónvarpsstöðanna. Við erum með græjurnar og mannskapinn, allt sem til þarf. Nú er engin afsökun að sýna ekki jafn marga KA leiki eins og leiki Breiðabliks eða hvernig sem það er,“ segir Ingimar.

Land undir fót

Þá segir hann jafnframt að bíllinn auki möguleika fyrirtækisins að vera með beinar útsendingar af viðburðum hvar á landi sem er.

„Svo eru auðvitað tónleikaupptökur og ýmislegt sem við ætlum okkur að róa á. Við ætlum t.d. í næstu viku að taka upp Drauga fortíðar á Græna Hattinum, svona til að vígja bílinn,“ útskýrir Ingimar, en Draugar fortíðar er eitt vinsælasta hlaðvarp landsins og þeir eru á ferð um landið þar sem þeir munu fræða og skemmta áhorfendum í sal.

„Bíllinn er nefnilega nógu lítill og nettur til að komast í portið fyrir aftan Græna hattinn. Það var m.a. það sem horft var til með hönnunina. Við treystum líka á gott samstarf við menningarfélögin og tónleikahaldara og trúum því að nóg sé af verkefnum þarna úti,“ segir Ingimar og bætir við að landbyggðin eigi skilið meira pláss á ljósvakamiðlunum.

Engar afsakanir lengur

„Við vonum a.m.k. að stóru miðlarnir nýti þjónustu okkar.  Það er alla vega ekki hægt að nota það sem afsökun lengur að það sé svo dýrt að fljúga öllu „crewinu“ úr Reykjavík því það er nú orðinn algjör óþarfi. Það er enginn tilgangur í því að vera fljúga inn allskonar sérfræðingum að sunnan þegar fólk er fullkomlega fært um að leysa þessi verkefni sjálft hér á svæðinu,“ segir Ingimar og hlær.

Nýji togarinn í flotanum

„Við ætlum svo að taka rúnt um kjördæmið og sýnum nýja bílinn í næstu viku. Við komum við á Húsavík, Raufarhöfn, Akureyri, Sauðárkróki, Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði og viljum gjarnan hitta bæði fólk með hugmyndir og fólk sem vill vinna með okkur á öllum þessum stöðum. Nánari tilhögun á þessu verður komin í ljós á næstu dögum og verður kynnt í framhaldinu,“ segir Ingimar og ekki er laust við smá stolt í raddblænum.

„Maður man eftir því þegar maður var krakki t.d. þegar þotur voru að koma til Akureyrar eða nýtt skip frá Samherja hvað manni þótti þetta spennandi. Fyrir okkur kvikmyndagerðanördanna þá er þessi bíll svolítið eins og nýr togari í bæinn,“ segir hann glettinn.

Frumsýning á Raufarhöfn

Castor milar

Laugardaginn 18. janúar verður heimildaþátturinn Raufarhöfn Rokkar frumsýndur í Hnitbjörgum, félagsheimili Raufarhafnar. Þátturinn er framleiddur af Castor Media og fjallar um Raufarhöfn í aðdraganda tónleika Skálmaldar í Heimskautsgerðinu í haust. Að lokinni sýningu verða sýnd 4 lög frá tónleikunum.

„Þetta var heldur betur ævintýri og gæti ekki hafa farið betur saman; Skálmöld og Heimskautagerðið,“ segir Ingmar um þáttagerðina.

„Enda sögðu þeir sjálfir, strákarnir í Skálmöld að það hafi verið eins og einhver hafi haft hljómsveitina í huga þegar ráðist var í gerð og hönnun Heimskautagerðisins. Þetta var fullkomin samsetning. Maður áttaði sig á því þegar maður var að upplifa þetta, veðrið var frábært, smekkfullt og allt gekk fullkomlega upp. Þá fattaði maður að þetta var atburður sem maður upplifir bara einu sinni á ævinni. Ég er búinn að vera vinna við klippingu og samsetningu á tónleikunum alveg frá því að þeir fóru fram og ég fæ enn þá gæsahúð þó ég sé búinn að horfa á sama lagið 50 sinnum,“ segir Ingimar að lokum.

 

Nýjast