27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Heimgreiðslur til foreldra leikskólabarna hefjast næsta haust
Á síðasta fundi bæjarstjórnar Akureyrar voru samþykktar reglur um heimgreiðslur til foreldra sem ætlað er að brúa bilið frá fæðingarorlofi þar til barn er innritað hjá dagforeldri eða býðst leikskólapláss, auk þess að koma til móts við foreldra/forráðamenn eldri barna sem eru að bíða eftir leikskólaplássi. Greiðslur heimgreiðslna hefjast næsta haust. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Þar segir að um sér að ræða tilraunaverkefni frá 1. september 2023 til 31. júlí 2024.
Í reglunum segir að foreldrum/forráðamönnum barna með lögheimili í Akureyrarbæ verði heimilt að sækja um heimgreiðslur, enda njóti þeir ekki annarra niðurgreiðslna vegna vistunar barns og séu að bíða eftir leikskólaplássi. Foreldrar/forráðamenn hafa rétt á að sækja um heimgreiðslur frá 12 mánaða aldri barns.
Þegar þar að kemur verður sótt um heimgreiðslur í gegnum Þjónustugátt Akureyrarbæjar. Gildistími heimgreiðslna miðast við næstu mánaðamót eftir að barn nær 12 mánaða aldri. Dæmi: Foreldri/forráðamaður barns sem er fætt 6. september 2022 getur sótt um greiðslur fyrir októbermánuð 2023 ef barnið er ekki hjá dagforeldri eða í leikskóla. Reikningur greiðist eftir á fyrir nýliðinn mánuð.
Upphæð heimgreiðslu verður 105.000 kr. á mánuði og tekur breytingum í upphafi árs samhliða ákvörðun um gjaldskrárbreytingar. Greiðslur falla niður þegar barni býðst leikskólapláss, byrjar í leikskóla eða byrjar hjá dagforeldri.
Heimgreiðslur frá Akureyrbæ verða greiddar sem styrkur og verða framtalsskyldar til skatts.
Heimgreiðslur verða greiddar í allt að 11 mánuði á ári en eru ekki greiddar vegna ágústmánaðar.
Gildistími reglnanna er til 31. júlí 2024. Komi til þess að reglurnar verði framlengdar skal það liggja fyrir sex mánuðum áður en þær renna út.