Heillaðist af íslenska landslaginu, fossum og gljúfrum
Vestur Íslendingurinn Maia Chapman var sjálfboðaliði í Kjarnaskógi - Hún segist hafa heillast af landi og þjóð
„Ég elska Ísland,“ segir Maia Chapman frá Calgary, sem er í Albertafylki í Kanada. Hún var hér á ferð á vegum Snorra verkefnisins og starfaði þá m.a. í Kjarnaskógi. Maia er vöruhönnuður hjá tæknifyrirtækinu D2L í Calgary. Hana langar að koma aftur til Íslands, keyra hringinn um Ísland og kynna landið fyrir kærasta sínum.
Snorra verkefnið myndar eins konar brú á milli menningarsvæða en í tengslum við það býðst fólki af íslenskum ættum að koma til Íslands, kynnast uppruna sínum, menningu landsins og fjarskyldum ættingjum. Markmið Snorra verkefnisins er að styrkja tengsl afkomenda Íslendinga í Norður-Ameríku við Ísland og Íslendinga og hvetja þá til að varðveita og rækta íslenskan menningar- og þjóðararf sinn í fjölþjóðlegu samfélagi í Kanada eða Bandaríkjunum. Verkefnið er fyrir fólk á aldrinum 20 til 30 ára.
Langafinn úr Skagafirði
Langafi Maiu var Magnús Jónsson frá Fremri Kotum í Skagafirði sem fluttist til Kanada árið 1911, þá 22 ára gamall. Hann kvæntist Hannesínu Margréti Johnson sem átti íslenska foreldra og eignuðust þau hjónin 5 börn. Magnús tók þátt í fyrri heimstyrjöldinni fyrir Kanada ekki löngu eftir komuna til landsins.
Maia segist hafa ákveðið vegna tengsla sinna við landið að taka þátt í Snorra verkefninu og nýta sér tækifærið á að heimsækja Ísland. Snorra verkefnið stendur yfir í 5 vikur og að þessu sinni voru þátttakendur 15 talsins. Verkefnið fær styrki frá fjölmörgum stofnunum, m.a. Akureyrarbæ.
„Fyrstu tvær vikurnar voru á námskeiðum sem tengjast tungumálinu og menningu landsins, við fórum í skoðunarferðir um Reykjavík og nágrenni, heimsóttum forsetann og einnig starfsfólk í sendiráðum Kanada og Bandaríkjanna. Næstu tvær vikur þar á eftir fórum við öll í heimagistingu víðs vegar um landið og gistum þá hjá fólki sem við tengjumst fjölskylduböndum en á þeim tíma störfum við einnig sem sjálfboðaliðar á því sem við dveljum á,“ segir Maia en í síðustu viku Íslandsferðarinnar var farið í ævintýraferð um Vestfirði sem tókst vel.
Gaman að ná tengingu við ættingja sína
Á Akureyri dvaldi Maia hjá Sigurði Hólm Sæmundssyni og hans fjölskyldu en Maia og Sigurður eru fjórmenningar. Hún starfaði í Kjarnaskógi á meðan á dvölinni fyrir norðan stóð og líkaði vel. „Við Siggi þekktumst ekki neitt áður en ég kom, en það var virkilega gaman að ná tengingu við ættingja sína hér á landi,“ segir hún og var ánægð með að fjölskyldan bauð upp á margar frábærar ferðir þar sem helstu náttúruperlur Norðurlands voru skoðaðar.
„Ég hef alla tíð haft áhuga fyrir að læra meira um Ísland og hvaðan fjölskyldan mín kemur. Magnús langafi minn var sá eini í sinni fjölskyldu sem flutti til Kanada, en hann átti mörg systkini sem bjuggu á Íslandi. Það voru ekki mikil samskipti á milli kanadísku og íslensku fjölskyldunnar svo við vissum ekki mikið hvort um annað. Ég hafði áhuga fyrir að mynda tengsl við mína ættingja hér á landi og einnig að heiðra minningu Magnúsar og einnig Þórðar afa míns sem aldrei kom til Íslands í sinni tíð,“ segir Maia
Vill koma aftur og keyra hringinn
Skemmst er frá því að segja að Maia er stórhrifin eftir þátttökuna í Snorraverkefninu og heimsóknina til Íslands, en þetta er í annað sinn sem hún heimsækir landið. Hún var hér á ferð með móður sinni, Debbie Jonasson árið 2022. Þá dvöldu þær mæðgur í Reykjavík og skoðuðu sig að auk um á Suðurströndinni. „Það hefur verið hreint ótrúlegt að sjá landslagið á Íslandi sem er svo fjölbreytt og fallegt og að fá færi á að upplifa landið sem fjölskylda mín er upprunalega frá. Það var svo frábært að sjá alla fossana og gljúfrin fyrir norðan, mikil og góð upplifun. Ég var líka mjög ánægð með að fá að gerast sjálfboðaliði í Kjarnaskógi og læra meira um skógrækt á Íslandi og alla þá vinnu sem landsmenn hafa lagt í að planta skógum og gera þá svo einstaka,“ segir Maia
Hún stefnir á að heimsækja landið enn á ný síðar. „Ég vil endilega koma aftur einhvern tíma seinna. Það væri gaman að fara í tjaldferðalag, keyra hringinn í kringum landið með kærastanum mínu og fá þannig tækifæri til að sjá enn meira af landinu. Eins væri yndislegt að heimsækja fjölskyldu mína á Akureyri aftur og kynna kærastann minn fyrir henni.“