Hefur selt K-lykilinn í 50 ár

Kiwanismennirnir Björn Viðar og Matthías Annisius stóðu vaktina í Netto á Húsavík á dögunum og seldu…
Kiwanismennirnir Björn Viðar og Matthías Annisius stóðu vaktina í Netto á Húsavík á dögunum og seldu K-lykilinn. Mynd/Sigurgeir Aðalgeirsson.

Um þessar mundir hafa meðlimir úr Kiwanisklúbbum landsins verið áberandi um allt land við að selja K-lykilinn svokallaða en það er liður í Landssöfnun Kiwanis fyrir Einstök börn sem hefur staðið yfir frá 26. september og líkur til 8. október.

Sigurgeir Aðalgeirsson, Kiwanismaður á Húsavík segir í samtali við Vikublaðið að söfnunin hafi gengið ágætlega en Sigurgeir hefur tekið þátt í viðburðum og söfnunum í tilefni K-dagsins í 50 ár eða frá stofnun Kiwanisklúbbsins Skjálfanda á Húsavík.

Sigurgeir kiwanis

„Við vorum reyndar frekar fáir að þessu sinni og gátum því bara staðið vaktina við Netto. En þetta er viðburður sem Kiwanis hefur staðið fyrir í 50 ár,“ segir Sigurgeir og bætir við að það hafi alltaf falist í sölu á K-lyklinum.

 „Þetta var lengst af til styrktar geðræktarmála en þessi félög sem við höfum verið að styðja við bakið á eins og Píetasamtökin og fleiri í gegnum árin eru nú komin á fjárlög og því var tekinn ákvörðun um að huga að öðrum málum. Að þessu sinni varð fyrir valinu þessi félagsskapur sem gengur undir nafninu Einstök börn,“ útskýrir Sigurgeir.

Einstök börn

Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni. Félagið var stofnað 13. mars 1997 af foreldrum nokkurra barna en nú hefur félagið stækkað ört og eru hátt í 800 fjölskyldur í félaginu.

Ástæðan fyrir stofnun félagsins var sú að ákveðin börn í samfélaginu áttu ekki heima í neinum öðrum félagasamtökum og töldu þeir foreldrar sem hófu starfsemi Einstakra barna að þar gætu þau fundið sameiginlegan vettvang til að deila reynslu og vinna að bættum hag barna sinna.

Þeir sjúkdómar og heilkenni sem börn og ungmenni félagsins lifa með eru allir langvinnir og hafa varanleg áhrif á líf þeirra og fjölskyldur. Þar sem um sjaldgæfar greiningar  er að ræða hafa margar þeirra lítið verið rannsakaðar og í fæstum tilfellum er til eiginleg meðferð við þeim. Flestar greiningarnar  eru alvarlegar og hafa sumar áhrif á lífslíkur og lífsgæði.

Markmið félagsins er að styðja við bakið á fjölskyldum þessara barna. gæta hagsmuna þeirra innan sem utan sjúkrahúsa og fræða almenning um sjaldgæfa sjúkdóma. Í félaginu er leitast við að aðstoða þá foreldra, sem litlar upplýsingar hafa um sjúkdóm barna sinna, með hjálp internetsins og með samstarfi við foreldrafélög í öðrum löndum. Félagið veitir fjölskyldum einnig styrki til að sækja ráðstefnur, fara í frí, vegna aðgerða eða rannsókna erlendis o.fl.

Fellur vel að markmiði Kiwanis

„Þetta ágæta félag er ekki inn í þessu almannakerfi eins og geðvernd t.d. og því ákváðum við að styðja við félagið. Þetta samstarf sem hófst síðastliðinn vetur hefur gengið vel og við erum búnir að setja svolítinn pening í þetta félag nú þegar. það var gert síðast á degi Einstakra barna sem var 29. febrúar sl.,“ útskýrir Sigurgeir en stuðningur við félagið gæti varla átt betur við enda er megin markmið Kiwanis International að bæta líf barna í heiminum. Það er gert með fjölbreyttum verkefnum innan hreyfingarinnar.

 Fjölbreytt verkefni

Sigurgeir segir að þessi söfnun í nafni K-lykilsins hafi farið fram á 3-4 ára fresti síðustu ár en verkefninu var upphaflega ýtt úr vör árið 1974.

„Þetta er eitt fyrsta verkefnið sem við tókum þátt í, Kiwanisklúbburinn Skjálfandi. Við sem sagt byrjuðum að starfa þarna, 24 mars 1974,“ segir Sigurgeir sem er einn af stofnfélögum Skjálfanda og hefur tekið þátt í öllum K-dögunum frá upphafi.

Sala á K-lyklinum er aðeins eitt af fjölmörgum samfélagsverkefnum sem Kiwanisklúbburinn Skjálfandi stendur fyrir.  „Þetta er eitt af þessum verkefnum sem allir klúbbarnir á landsvísu taka þátt í en svo erum við líka með okkar eigin verkefni. Þar er náttúrlega flugeldasalan okkar stærsta verkefni. Svo höfum við verið með í sölu á vegvísaskiltum sem eru hér sunnan og norðan við bæinn. Fyrirtækin í bænum taka þátt í þessu og kaupa línu og eru þá merkt með punkti inn á kortið. Skiltin eru svo endurnýjuð á þriggja ára fresti,“ segir Sigurgeir og bætir við að starfið sé alltaf gefandi, annars væri hann varla búinn að endast allan þennan tíma.

Kallar eftir samfélagsandanum

Talandi um endurnýjun, þá berst talið að endurnýjun á meðlimum klúbbsins en Sigurgeir segir hana klárlega mega vera hraðari.

,,Þessi endurnýjun er náttúrlega búin að vera allt of hæg. Við höfum ekki náð neinum nýjum meðlimum inn á þessu starfsári, en náðum þó tveimur á því síðasta. Vonandi ná þeir að draga einhverja með sér með tímanum. En það er ekkert launungamál að hreyfingar eins og þessi er bara að eldast. Það er stóra vandamálið,“ segir Sigurgeir og bætir við að hugarfarið í samfélaginu sé búið að breytast mikið á síðari árum.

„Þetta hugarfar um að gefa eitthvað af sér í sjálfboðavinnu í þágu samfélagsins er bara einfaldlega á undanhaldi miðað við það sem var,“ segir Sigurgeir að lokum.

Rétt er að benda á að enn hægt að leggja söfnuninni til handa Einstakra barna lið með því að fara inn á heimasíðuna Kiwanis.is og  styrkja samtökin beint í nafni Kiwanis.

 

Nýjast