Háskólinn á Akureyri - Nýnemadagar fara fram dagana 27.-30. ágúst

Háskólinn á Akureyri hefur upplifað verulega aukningu í innritunum á undanförnum tveimur árum. Seinni greiðslufrestur skólagjalda var í vikunni og stefnir heildarfjöldi stúdenta yfir 2700 fyrir komandi skólaár. Þessi tala inniheldur þó ekki skiptinema, þá sem eru í námsleyfi, á undanþágu, gestanema eða þá sem munu brautskrást í október. Til samanburðar var heildarfjöldi virkra stúdenta í fyrra 2.638. Þessar tölur sýna að Háskólinn á Akureyri vex hratt og örugglega og býður jafnframt upp á eftirsóknarverða menntun á landsbyggðinni.

Nýnemadagar

„Nýnemavika er mín allra uppáhalds vika hér í HA. Það er svo margt að plana og gera og græja til þess að fyrstu kynni nýnemanna verði sem eftirminnilegust. Mig langar að öll skemmti sér vel og séu full tilhlökkunar fyrir komandi árum í HA, því það hafa svo sannarlega verið mín bestu ár. Það gefur mér svo mikið að sjá öll nýju andlitin og kynnast nýju fólki. Ég til dæmis kynntist mörgum af mínum bestu vinum hér í HA og mun ég verða ævinlega þakklát fyrir það. Hlakka til að taka á móti ykkur öllum!“ segir Silja Rún Friðiksdóttir, forseti Stúdentafélags Háskólans á Akureyri.

Tilgangur nýnemadaga við Háskólann á Akureyri er að bjóða nýnema velkomna í háskólaumhverfið. Þeir eru hluti af langri hefð skólans þar sem margir fyrrum stúdentar hafa lagt grunn að áratugalangri vináttu. Starfsfólk og fulltrúar Stúdentafélags skólans eru nú í óða önn að undirbúa komu um 930 nýnema og á föstudeginum verður tekið sérstaklega á móti um 45 skiptinemum frá um 15 löndum. Óhætt er því að segja að næsta vika verði fjölbreytt, annasöm og spennandi fyrir öll á háskólasvæðinu.

Nýnemadagar eru vettvangur til að kynnast samnemendum, starfsfólki og þjónustu háskólans, svo sem tölvuumhverfi, prófareglum, bókasafni, námsráðgjöf, alþjóðasamstarfi og húsnæði. Hægt er að sjá dagskrá nýnemadaga inn á heimasíðu skólans, unak.is.

 


 

Nýjast