Háskólinn á Akureyri hjartar samvinnu

Ingvi Hrannar í stúdíói HA   Myndir Aðsendar
Ingvi Hrannar í stúdíói HA Myndir Aðsendar

Menntaviðburðurinn Utís fór fram á d0gunum og var að öllu leyti á netinu. Utís er ráðstefna sem Ingvi Hrannar Ómarsson á veg og vanda af og er fyrir kennara, stjórnendur og starfsfólk á öllum skólastigum. Í ár var ráðstefnan send út frá Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð Háskólans á Akureyri (KHA), þar sem má finna framúrskarandi aðstöðu til upptöku og útsendingar. Því var upplagt að geta notað aðstöðuna í ráðstefnu sem lýtur að framþróun í kennslu.

Dagskrá Utís er alltaf metnaðarfull og fyrirlesarar eru erlent fræðafólk sem er framarlega í sínum störfum. Fyrirlesarar voru um 20 talsins og meðal annarra má nefna Todd Whitaker, sem er prófessor í menntunarleiðtogafræðum við háskólann í Missouri og hefur gefið út yfir 60 bækur. Hann fjallaði um hvað frábærir kennarar gera öðruvísi og kom sérstaklega inn á mikilvægi jákvæðni, að hrósa á réttan hátt og hvernig okkar viðhorf hefur áhrif á öll í kringum okkur. Connie Hamilton fór yfir 28 hugmyndir um hvernig efla megi hreyfingu, samvinnu og minnka streitu á öllum skólastigum og í öllum fögum. Connie er með meira en tveggja áratuga reynslu sem kennari og skólastjórnandi og starfar í dag sem kennari og rithöfundur.

„Það er svo ótrúlega gaman að sjá hvernig ráðstefnan hefur stækkað og í ár voru haldin yfir 150 þátttökupartý þar sem skólar og stofnanir um land allt tóku þátt með sinni eigin útfærslu. Happy hour, hádegismatur, út að borða, tónleikar og er þetta gott tækifæri til að njóta saman í góðri starfsþróun fyrir allt starfsfólk, svo ég myndi segja að árangur hafi náðst!“ segir Ingvi Hrannar Ómarsson, skipuleggjandi ráðstefnunnar.

Hugstormurinn sem varð að ráðstefnu

Ingvi Hrannar hafði frétt af stúdíóaðstöðunni sem KHA hefur upp á að bjóða og ákvað að fá þau í samstarf varðandi útsendingu Utís í ár. Starfsfólk KHA tók náttúrlega vel í það og Gunnlaugur Starri Gylfason, verkefnastjóri myndvers KHA, hefur unnið með Ingva að skipulagningu síðan í mars. Í vikunni fyrir ráðstefnuna sjálfa var allt undir í uppsetningu stúdíós svo að útsendingin gengi snurðulaust fyrir sig. Um 2500 einstaklingar fylgdust með útsendingunni. Að halda svona ráðstefnu á netinu þarfnast góðrar tækniþekkingar, aðstöðu og öflugs starfsfólks. „Hjá KHA er í boði aðstaða til þess að senda út svona í streymi og það var gott tækifæri til að fá að vinna með Starra útsendingastjóra og því flotta fólki sem er í KHA,“ segir Ingvi aðspurður um af hverju hann valdi að snúa sér til KHA.

Á föstudagskvöldinu var svo boðið upp á tónleika á Græna hattinum og þeim var að sjálfsögðu streymt þannig að þátttakendur viðburðarins gátu fylgst með, hvar sem þeir voru á landinu.

Ráðstefnan á uppruna sinn að rekja til hugstorms Ingva Hrannars Ómarssonar þegar hann deildi hugmyndum sínum með öðrum kennurum um land allt í hópi á Twitter sem hét #menntaspjall. Þetta var í nóvember 2015 þegar hann var kennari í Árskóla á Sauðárkróki, og á endanum kom hópurinn í heimsókn og var þá fyrsta ráðstefnan haldin sem hefur stækkað mikið síðan. Frá árinu 2020 hefur ráðstefnan verið haldin annað hvert ár á netinu og hitt árið á stað. Ráðstefnuna má kynna sér betur á heimasíðu hennar http://utis.online

Unnið í skipulagningu í stjórnstöð

Nýjast