Hæstánægð með hversu vel þetta byrjar
mth@vikubladid.is
„Það er stórkostlegt að sjá þetta þarfa og mikilvæga verkefni loksins komast af stað,“ segir Bergrún Ólafsdóttir verslunarstjóri hjá Hertex og tengiliður vegna verkefnis sem Hjálpræðisherinn, Akureyrarbær og Vistorka í samvinnu við fleiri hafa hrundið af stað á Akureyri. Yfir 30 fyrirtæki, veitingastaðir, matvælaframleiðendur, veisluhaldarar, bakarí og verslanir eru með í verkefninu sem miðar að því að þessir aðilar koma því sem eftir er af nýtilegum matvælum þegar sölu dagsins er lokið, í velferðarrými Hjálpræðishersins við Hrísalund.
Til stóð að koma matareldhúsinu upp mun fyrr en Bergrún segir að tafir skrifist m.a. á kórónuveiru heimsfaraldurinn sem gert hafi að verkum að öll aðföng, byggingarefni og fleira skilaði sér síðar en gert var ráð fyrir.
Á jarðhæð húsnæðis Hjálpræðishersins við Hrísalund hefur verið útbúið velferðarrými. Þar eru kæli- og frystiskápar og annað rými til að taka við þeim matvælum sem hægt er að nýta áfram. Starfsfólk þeirra staða sem gefa matvælin áfram hafa aðgang að velferðarrýminu. Þar starfa m.a. sjálfboðaliðar á vegum Hjálpræðishersins við að setja mat í bakka, en þeir brotna niður og mega fara í lífræna tunnu eftir notkun.
Draumurinn að setja upp frískáp
„Það leggjast allir á eitt við að sporna gegn matarsóun sem er mjög þarft samfélagsverkefni en ekki síður er mikilvægt að sá matur sem annars hefði endað í ruslatunnunni kemur sér í góðar þarfir hjá þeim sem þarfnast hans. Vitað er að endar ná ekki saman hjá öllum og reynsla þeirra sem deila út matvælum er sú að þörfin er brýn. Við erum hæst ánægð með hversu vel þetta fer af stað og við eigum örugglega eftir að sjá þetta vaxa og þróast,“ segir Bergrún. „Svo er draumurinn síðar meir að koma upp svonefndum frískápum utandyra þar sem hægt verður að setja í matvæla og þeir sem vilja og þurfa geta nýtt sér á öllum tímum sólarhringsins.“
Nafnasamkeppni í gangi
Hún segir að komin sé í loftið síða á fésbók sem ber vinnuheitið mataraðstoð gegn matarsóun en um þessar mundir stendur yfir nafnasamkeppni yfir verkefnið. „Við erum að leita eftir nafni sem allir skilja, er þægilegt og þjált og lýsandi fyrir hugmyndina á bak við verkefnið,“ segir hún.