13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Gripmælar, róbótar og ratleikur á Opnum degi Um 300 framhaldsskólanemendur lögðu leið sína í Háskólann á Akureyri
Stuðið var gífurlegt á dögunum þegar um 300 framhaldsskólanemendur heimsóttu Háskólann á Akureyri á Opnum degi. Skólinn hefur gert þetta í mörg ár í góðu samstarfi við náms- og starfsráðgjafa í framhaldsskólum á norðaustursvæðinu.
Hingað koma nemendur meðal annars alla leið frá Neskaupsstað og Sauðárkróki og býður háskólinn upp á rútuferðir frá öllum framhaldsskólum á svæðinu. Líkt og fyrri ár voru allar námsleiðir með kynningarborð þar sem núverandi stúdentar og kennarar sögðu frá þeirra námi ásamt því að víðsvegar var hægt að prófa ýmislegt tengt náminu. Iðjuþjálfar hafa til dæmis alltaf til taks tæki sem nýtt eru í iðjuþjálfun svo sem til að mæla grip, kraft og fleira. Þá er hægt að taka viðtal með grænskjá hjá fjölmiðlafræðinni, prófa róbóta sem smíðaðir eru í tölvunarfræði og kynnast vel öllum þeim námsleiðum í grunnnámi sem skólinn hefur upp á að bjóða.
Þá var nemendum boðið í ratleik sem felst í að skoða sig um og svara nokkrum laufléttum spurningum bæði út frá athugunum á svæðinu og með því að leita upplýsinga á netinu eða í samtali við starfsfólk og stúdenta. Eftir hádegismat voru svo nokkur heppin ungmenni dregin út sem unnu gæðalegan endurnýtanlegan vatnsbrúsa merktan Háskólanum á Akureyri sem vefverslun Stúdentafélagsins býður líka upp á. Í hádeginu var svo boðið upp á ljúffengar pizzur sem rennt var niður með svaladrykk.
Auður Ásta, nemandi við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra mætti með samnemendum á svæðið og henni þótti Opni dagurinn bæði fróðlegur og skemmtilegur. „Það kom má á óvart hvað skólinn er stór og stofurnar flottar. Skemmtilegast var að læra um brautirnar, krakkarnir sem voru að kynna voru mjög áhugasöm um það sem þau voru að læra og það gaf mér betri hugmynd um það sem ég vil læra í háskóla.“
Dagurinn er skipulagður í samvinnu Sólveigar Maríu Árnadóttur sem er viðburðastjóri skólans og kynningarfulltrúa SHA, Bryndísar Evu Stefánsdóttur. Þær fá svo fjöldann allan af starfsfólki og stúdentum til að hjálpa til við að gera daginn sem allra bestan.
Við tókum Bryndísi tali í kjölfarið á deginum. „Það skiptir svo miklu máli að halda
opinn dag. Dagurinn gefur framhaldsskólanemum tækifæri til að upplifa háskólaandann, kynnast námsleiðunum og sjá hvað HA hefur upp á að bjóða. Svona kynning getur skipt sköpum þegar nemendur framhaldsskóla eru að velta fyrir sér framtíðarnámi og styrkir einnig tengslin milli skólans og samfélagsins.“
Bryndísi fannst dagurinn heppnast virkilega vel, það hefði verið gaman að sjá hvað framhaldsskólanemarnir höfðu mikinn áhuga á námsleiðunum og þau greinilega nutu þess að skoða skólann ásamt því að spjalla við starfsfólk og stúdenta HA. Svona dagur gerist þó ekki af sjálfu sér og Bryndís segir að undirbúningur hafi þó gengið mjög vel. „Ég er virkilega þakklát öllum þeim stúdentum og kennurum sem hjálpuðu til við að gera daginn skemmtilegan og kynna HA fyrir gestunum. Ég ákvað á sínum tíma að bjóða mig fram í formennsku í Kynningarnefnd SHA því mér finnst mikilvægt að kynna skólann og þær fjölbreyttu námsleiðir sem hann hefur upp á að bjóða. Að vera hluti af Stúdentaráði hefur bæði gefið mér dýrmæta reynslu og aukið þekkingu mína á ýmsum sviðum. Það er sérstaklega gefandi að sjá unga nemendur fá áhuga á HA og jafnvel ákveða að hefja nám við skólann,“ segir Bryndís að lokum.