30. október - 6. nóember - Tbl 44
Götuhornið- Um upplysingalæsi landans og meira
Ég get ekki stillt mig um að reyna að fá að nota Götuhornið ykkar til að vekja athygli á fjölmiðlafræði sem áhugaverðu námsvali. Ég held að fólk átti sig ekki á því hve mikil framtíð er í fréttamennsku á Íslandi.
Ég var nokkuð lengi að velja þá leið sé ég vildi fara eftir að ég kláraði stúdentsprófið í MA. Pabbi vildi að ég færi í læknisfræði. Hún heillaði mig ekkert sérstaklega og ég var ekki viss um að ég yrði góður læknir. Pabbi sagði að það skipti engu máli því að þeir læknar sem ekki væru góðir gætu hæglega haft gott lifibrauð af því að vera matslæknar því að tryggingafélöginn væru til í að borga þeim umtalsverða peninga fyrir að hjálpa þeim að komast undan því að borga slösuðu fólki bætur.
Svo gerðist það að Alþingi ákvað að allir helstu fjölmiðlar landsins ættu að vera reknir á kostnað ríkissjóðs. Þar með voru allir fréttamenn orðnir hálfgerðir ríkisstarfsmenn, þeim farið að fjölga verulega og farnir að krefjast þess einum rómi að eftirlitsstofnanir ríkisvaldsins fengju meiri valdheimildir og helst heimildir til að refsa fólki. Á sama tíma urðu stjórnmálaflokkar líka ríkisreknir og mikil viðskiptatækifæri þar. Augljóslega verður nóg að gera í fréttamennsku, gnægð viðmælenda og glæsileg framtíð í þessum geira. Þetta var ástæðan fyrir því að ég fór að læra fjölmiðlafræði núna í haust.
Eitt af fyrstu viðfangsefnum námsins var upplýsingalæsi almennings. Ég fór að hafa áhyggjur af því að vegna upplýsingaóreiðu gæti almenningur illa áttað sig á raunveruleikanum. Ég hitti svo skipstjóra í jólaboði á dögunum og hann sýndi mér fram á að ég get verið áhyggjulaus um þetta. Hann rifjaði það upp að í nóvember og desember ræddu fréttamenn RÚV ekki mikið við Þorvald jarðfræðing. Þess í stað spurð þeir annan og taldi sá fráleitt að telja að sú atburðarrás sem þá var farin af stað á Reykjanesi mundi enda með eldgosi. Skipstjórinn sagði að strax að þeim orðum slepptum hafi almenningur, Almannavarnir, dómsmálaráðuneytið og lögreglustjóri gripið til ráðstafana til að verja almenning og innviði á Reykjanesi fyrir yfirvofandi eldsumbrotum. Menn væru því góðir í upplýsingalæsi og algjörlega meðvitaðir um þá ritstjórnarstefnu fréttastofu RÚV að gæta þess að ævinlega sé ríflegt bil milli fréttaflutnings þeirra og raunveruleikans. Rýmingar hefði svo auðvitað skapað tækifæri til afritunar snjalltækja í mannlausum Grindavíkurbæ þó að myndavéladyrabjöllur hefðu reyndar eyðilagt það.
Upplýsingalæsi Íslendinga er góð. Framtíðin er björt og nú þarf ég bara að passa mig á að segja ekkert og skrifa sem styggir þá stjórnmálamenn sem stýra því hve mikla peninga fjölmiðlar fá úr vösum skattgreiðenda. Tjáningarfrelsið er ekki ókeypis og Píratarnir verða fljótir að refsa ef ég geri mistök með því að skrúfa fyrir ríkisstyrkinn. Og svo verð ég auðvitað að gæta þess sérstaklega að segja hvorki né skrifa eitthvað sem gefur í skyn að siðferðisleg viðmið og við setjum um aðra gildi líka um forystu blaðamanna. Það segir sig sjálft.
Ég skil samt ekki af hverju háskólinn bætti blómaskreytinganámskeiði inn í þetta fjölmiðlanám.