Gott þegar vel gengur
Við Norðlendingar höfum fengið sýnishorn af hinum ýmsu veðrum undanfarnar vikur. Veturinn var mildur og mjúkur lengi vel, svo brast á með umhleypingum, svellum og loks iðulausri stórhríð,- íslenskur vetur kemur í mörgum myndum eins og venjulega. Verandi hundaeigendur er okkur hjónum ekki annað fært en að stunda daglega útivist sem þýðir það að við þurfum að eiga fatnað fyrir öll þessi veður, -úlpur, skíðagleraugu, gönguskó, stígvél og auðvitað mannbrodda. Árið sem er að líða hefur líka einkennst af nauðsyn þess að almenningur hreyfi sig utandyra þar sem líkamsræktarstöðvar og sundlaugar hafa meira og minna verið í lamasessi.
Ég trúi því einlæglega að útvist og nálægð við náttúruna sé okkur langbesta heilsubótin bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu. Undanfarin ár hafa líka birst fjöldinn allur af niðurstöðum rannsókna sem ber saman um þetta. og einnig það að manngerð náttúra komi ekki í stað þeirrar sem er óspillt frá upphafi.. Umhverfissálfræðingar hafa bent á nauðsyn þess að fjölga grænum svæðum og hvatt til þess að yfirvöld horfi til þess fremur en að einblína á þéttingu byggðar.
En útivist má ekki vera bundin við sumarveður og blíðu. Mér sýnist að það sé ábyrgð hvers samfélags að íbúum sé gert það kleift að njóta náttúrunnar, og stunda gönguferðir allan ársins hring. Bæjarfélög þurfa að setja það í algjöran forgang að tryggja íbúum greiðfæra og hálkulausa göngustíga, upphitaðar göngubrautir og náttúrulegt umhverfi til útivistar. Og þá er ég að tala um aðstöðu fyrir unga sem aldna, fatlaða og ófatlaða, allan almenning en ekki endilega íþróttafólk. Göngutúrarnir okkar eru mislangir í lífinu. Það er heilsuvernd í sinni bestu mynd að tryggja slíkt umhverfi og sómi hverju samfélagi. Það er fínt að eiga sundlaugar, skíðasvæði og listasöfn en það að geta farið út að ganga,- það er forgangsmál.
Gleðilega aðventu og góðar gönguferðir.
-Inga Dagný Eydal