Golfsumarið gekk ótrúlega vel á Jaðarsvelli
„Golfsumarið í ár gekk ótrúlega vel þrátt fyrir kalda byrjun,“ segir Steindór Kr. Ragnarsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar. Spilaðir voru talsvert fleiri hringir en í fyrra, nýju félagsmönnum fjölgaði umtalsvert á milli ár og völlurinn er vinsæll meðal ferðafólks. Þá standa yfir framkvæmdir við Jaðar þar sem m.a. er verið að byggja upp nýja inniaðstöðu.
Alls voru spilaðir 23.539 hringir á vellinum frá vori og fram eftir hausti sem er að sögn Steindórs aukning um 400 hringi frá árinu áður.
80 nýir félagsmenn
Talsvert aukning varð í fjölda nýrra klúbbfélaga en þeim fjölgaði um 80 á milli ára. „Það er mesta fjölgun hjá okkur í langan tíma,“ segir hann, en félagsmenn í GA eru nú um 930 talsins. Þegar golfskólinn sem eru fyrir börn og ungmenni frá 6 til 14 ára er talinn með fer fjöldinn upp í 1.100 manns sem á einhvern hátt tekur þátt í starfsemi klúbbsins.
GA félagar hafa nýtt völlinn gríðarlega vel í sumar, einkum var júlímánuður stór, en þann mánuð spiluðu félagsmenn ríflega 6 þúsund hringi á vellinum ef frá eru talin golfmót haldin í þeim mánuði.
45 erlendir kylfingar hafa skráð sig á Arctic Open 2025
Steindór segir Jaðarsvöll vinsælan meðal ferðafólks. „Við erum með flott golfmót sem jafnan trekkja að,“ segir hann en alls voru haldin 11 golfmót á liðnu sumri með 100 þátttakendum eða fleiri og fjögur þar sem keppendur voru 200 eða fleiri. Fullt var á nokkur af vinsælustu mótunum. Sem dæmi voru 285 kylfingar með í Arctic Open 2024 sem er nýtt met. Þegar hafa borist bókanir frá 45 erlendum kylfingum á Arctic Open næsta sumar og segir Steindór að þegar sé 14 komnir á biðlista.
Steindór Kr. Ragnarsson framkv.stj. GA
Framkvæmdir ganga vel
Miklar framkvæmdir hafa verið í byggingu nýrrar inniaðstöðu Golfklúbbs Akureyrar undanfarið. Síðastliðinn vetur var kjallari byggður en smá hlé var gert yfir sumarmánuðina vegna hita. Aftur var hafist handa í ágústmánuði við að reisa stálgrind sem gekk vel og reis hún hratt. Ekki hægði á þegar yleiningarnar fóru hver af annarri að hlaðast upp. Nú er búið að loka húsinu með yleiningum og gluggar komnir á. Í liðinni vikur var hafist handa við millibygginguna sem tengir golfskálann við nýju bygginguna.
Steindór segir vonast til að hægt verði að taka hluta af byggingunni í gagnið í desember næstkomandi. „Framkvæmdir eru á fullu og ganga vel,“ segir hann en í húsinu verður aðstaða fyrir golfæfingar innan dyra. Þar verða 6 golfhermar ásamt 18 holu púttvelli.
Golfklúbburinn er framkvæmdaraðili verksins með styrk frá Akureyrarbæ til 5 ára.