Góð þátttaka í kjarakönnun meðal eldri borgara á Akureyri

Björn Snæbjörnsson formaður Kjarahóps Eldri borgara á Akureyri    Mynd KEP
Björn Snæbjörnsson formaður Kjarahóps Eldri borgara á Akureyri Mynd KEP

„Þetta eru mjög skýr skilaboð og gott veganesti fyrir okkur í komandi viðræðum um kjaramál eldri borgara,“ segir Björn Snæbjörnsson formaður Kjarahóps Félags eldri borgara á Akureyri, Ebak. Hópurinn kynnti niðurstöðu kjarakönnunar sem gerð var meðal félagsmanna í október. Alls svöruðu tæplega 800 manns könnuninni eða um 47% þeirra sem voru í úrtaki.

 „Þáttakan var frábær og við erum þakklát fyrir að eldri borgarar hafi gefið sér tíma til að svara henni. Það gladdi okkur mjög og mikil þátttaka er líka til merkis um að kjaramálin brenna á eldra fólki. Það er ríkur vilji til þess hjá hópnum að eitthvað verði gert til að bæta kjör eldra fólks,“ segir Björn. Kjarahópur Ebak er til þess að gera nýlegur og segir hann ekki ónýtt að fá þetta góða start þegar starfið er að hefjast.

Hækkun lífeyrisgreiðslna efst á blaði

Fram kom að hækkun lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun var það atriði sem flestir nefndu hvað setja ætti á oddinn í viðræðum við ríkið, alls um 76% þeirra sem svöruðu. Þá nefndu eldri borgara einnig að mikilvægt væri að hækka skerðingarmörk úr 25 þúsund krónum í 100 þúsund, eða um 60% svarenda. Eins voru um 35% sem tölu að hækka ætti skerðingar atvinnutekna upp í 300 þúsund krónur og tæp 20% nefndu hækkun heimilisuppbótar.

Flestir sem þátt tóku nefndu að þegar kæmi að sveitarfélaginu væri mikilvægt að semja um frístundastyrk fyrir eldri borgara, að matur væri í boði í félagsmiðstöðvun alla virka daga og þá nefndi hópurinn einnig að meiri afsláttur af fasteignagjöldum til eldri borgara kæmi sér vel. „Það er ljóst að fasteingagjöldin geta verið mjög íþyngjandi fyrir þann hluta hópsins sem býr við lágar lífeyrisgreiðslur,“ segir Björn.

Einnig var spurt um hvaða sérstöku aðgerðir kæmu þeim sem verst eru settir í hópi eldri borgara og nefndu flestir hækkun persónuafsláttar eða 75% svarenda. Einnig var nefnt að lækkun álagsprósentu í neðsta skattþrepi kæmi mörgum vel, aukagreiðslur til tekjulágra og sérstaktar húsnæðisbætur til þeirra sem minnstar hefðu tekjurnar.

Brýnustu verkefni á sviði húsnæðimála eru að mati svarenda þau að byggja fleiri eignar- og eða leiguíbúðir, ýmist í samvinnu við aðrar eins og byggingaverktaka eða Búfesti og eða á vegum félagsins. Þá nefndi rúmlega helmingur svarenda að uppbygging svonefnds lífsgæðakjarna væri það sem mestu skipti.

 

Björn segir að niðurstaða úr könnuninni verði kynnt fyrir þeim sem málið varði, þingmönnum kjördæmisins og bæjarfulltrúum sem dæmi.

Nýjast