Góð reynsla af símafríi

Mynd akureyri.is
Mynd akureyri.is

Góð reynsla hefur verið af símafríi í grunnskólum Akureyrarbæjar síðan símasáttmáli var innleiddur í upphafi skólaársins. Reglurnar kveða á um að símar eru ekki leyfðir á skólatíma, hvorki í skólanum né á skólalóðinni, en unglingastigið fær að nota síma í frímínútum á föstudögum.

Skólastjórarnir Eyrún Skúladóttir í Glerárskóla og Bryndís Björnsdóttir í Naustaskóla segja breytingarnar hafa gengið vonum framar. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel og mun betur en við þorðum að vona,“ segir Eyrún og Bryndís tekur undir. „Ég viðurkenni að ég var hálfkvíðin þegar við fórum af stað, en þetta hefur gengið afskaplega vel hér í Naustaskóla.“

Í báðum skólum var aðstaða fyrir krakkana bætt. „Þau eru meira að spjalla, spila og leika sér og geta farið í íþróttahúsið í frímínútum. Það er meiri ró yfir öllu og þau gefa sér meira að segja lengri tíma til að borða,“ segir Bryndís en bætir við að skólinn sé þó ekki laus við vandamálin sem fylgja símunum. „Nemendur á miðstigi koma stundum reið og tætt í skólann á morgnanna eftir eitthvað sem hefur gerst á TikTok utan skólans. Samskiptin þar eru oft neikvæð og smitast inn í skólastarfið þrátt fyrir að símarnir séu ekki notaðir þar. Foreldrar mættu alveg vera meira vakandi yfir því sem er að gerast á samfélagsmiðlum.“

Þetta mátti fyrst lesa á vef Akureyrarbæjar

Nýjast