Gígur í Mývatnssveit verður starfsstöð fjögurra stofnana
Mth@vikubladid.is
Starfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs, Umhverfisstofnunar, Landgræðslunnar og Náttúrurannsóknarstöðvar við Mývatn, Ramý hefur verið opnuð á Skútustöðum í Mývatnssveit. Ríkið keypti á liðnu ári Hótel Gíg sem þar stendur, hús sem upphaflega hýsti barnaskóla sveitararinnar og er breytingum á þeim hluta hússins þar sem starfsstöðvar stofnanana verða senn að ljúka.Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði starfsstöðina formlega.
Gígur á einnig að hýsa sameiginlega gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og náttúruverndarsvæða í Mývatnssveit, þar sem verður að finna upplýsingar og sýningu um þjóðgarðinn og verndarsvæði Mývatns og Laxár. Þá mun Gígur hýsa rannsóknarsetur á sviði hugvísinda í sameinuðu sveitarfélagi Suður-Þingeyjarsýslu.
Atvinnuskapandi nýsköpun og þekkingarsetur
Gígur stendur á einstökum útsýnisstað við Mývatn og þóttu kaup á því hagstæður kostur fyrir ríkissjóð sem gætu um leið skapað tækifæri í Mývatnssveit segir í frétt á vef stjórnarráðsins.
Skútustaðahreppur hefur áform um að nýta hluta af húsnæðinu undir atvinnuskapandi nýsköpun og þekkingarsetur. Einnig gefst möguleiki á að útbúa þar starfsaðstöðu fyrir opinber störf án staðsetningar, t.d. á vegum annarra stofnana ríkisins, háskóla og rannsóknaraðila.