Gestir frá kínverskum háskóla

 Í gær heimsótti skólann sendinefnd frá Ningbo-háskóla í Kína. Sá háskóli er samstarfsháskóli HÍ og á hverju ári fara skiptinemar frá HÍ þangað. Með í för voru tveir starfsmenn frá Konfúsíusarstofnun, þau Magnús Björnsson forstöðumaður Konfúsíusarstofnunar og Þorgerður Anna Björnsdóttir kínverskukennari Konfúsíusarstofnunar á Akureyri.

Það er gaman að segja frá því að bæði eru þau stúdentar frá MA. Þau sýndu gestunum einmitt Carmínu frá sínum árum og vöktu þær mikla kátínu. Þorgerður Anna sagði einnig frá því að Skúli Magnússon hefði fyrstur Íslendinga sest á skólabekk í Kína.

Hann útskrifaðist frá MA árið 1956 og lærði kínversku og kínverska heimspeki við Beijing-háskóla árin 1957-1961, á afar róstursömum tíma í stjórnartíð Maos. Hún sagðist hafa rétt náð að hitta hann á gamalsaldri og spjalla við hann, en hann er nú látinn.

Hópurinn heimsótti einnig Gilja- og Glerárskóla þar sem Þorgerður Anna kennir kínversku.

Þetta kemur fram á vef MA.

Nýjast