Gera ráð fyrir umtalsverðri hækkun á kostnaðaráætlun
Jarðvegsframkvæmdir við nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili sem verður 4.100 fermetrar fóru fram í nóvember á síðasta ári. Síðan þá hefur lítið gerst og gapandi holan blasir enn við. Til stóð að byggingarframkvæmdirnar yrðu boðnar út í vor en af því hefur enn ekki orðið. Nú er beðið eftir uppfærðri kostnaðaráætlun áður en útboðsferli getur hafist.
Hafrún Olgeirsdóttir (D-lista), formaður byggðaráðs Norðurþings tekur undir með blaðamanni um að biðin sé orðin löng og segir að verkefnið strandi á ríkinu. Það er Framkvæmdasýsla ríkiseigna sem heldur utan um verkefnið fyrir hönd ríkisins.
„Það á eftir að bjóða út framkvæmdina en nú er verið að bíða eftir uppfærðri kostnaðaráætlun sem ætti að liggja fyrir í lok ágúst,“ segir Hafrún og bætir við að hún geri ráð fyrir að útboðsferlið geti tekið um sex mánuði.
Byggðarráð Norðurþings samþykkti í júní á síðasta ári uppfærða kostnaðaráætlun þar sem hlutur sveitarfélaganna sem að framkvæmdinni standa var áætlaður 880,5 milljónir króna eða 25% af heildarkostnaði. Þar af var hlutur Norðurþings áætlaður 670 milljónir. Hin sveitarfélögin eru Tjörneshreppur og hið nýsameinaða sveitarfélag, Þingeyjarsveit.
Nú er útlit fyrir að kostnaður við framkvæmdirnar muni hækka enn frekar. Hafrún bendir á að búið sé að bjóða út framkvæmdir við bygginu á 30 rýma hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði fyrir 2,5 milljarða. „Miðað við þær tölur getum við séð fram á umtalsverða hækkun hér í okkar sveitarfélagi. Við bíðum eftir þessari uppfærðu áætlun en við erum búin að vera þrýsta á ríkið í allt sumar og vor um að halda áfram með þetta. Það hafa verið talsverð samskipti við ríkið,“ segir Hafrún og bætir við að áhrif af stríðinu í Úkraínu og eftirköst Covid faraldursins séu megin ástæður fyrir því að uppfæra þurfi kostnaðaráætlun. Á síðasta fundi byggðaráðs fyrir sumarfrí, þann 7. júlí sl. var starfandi sveitarstjóra falið að afla upplýsinga frá fjársýslu ríkiseigna um fyrirhugað útboð.
Aðspurð segir Hafrún ekki óttast að yfirvofandi hækkun verði til þess að setja uppbygginguna í uppnám. „Nei ég ætla að vona alls ekki. Við viljum ótrauð halda áfram með þetta. Við erum komin á stað í þessa vegferð og nú þegar búið að eyða fjármunum í jarðvegsvinnu og hönnunarferlið. Við viljum sjá þessa uppbyggingu fara af stað,“ segir hún.