Fyrirmyndir og jafnréttisbaráttan

Heiðrún E. Jónsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Heiðrún E. Jónsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

Fyrirmyndin Vigdís

Í nýrri þáttaröð um frú Vigdísi Finnbogadóttir var brugðið upp viðkvæmri mynd af henni á yngri árum í persónulegu lífi. Hún hafði þó meira val en flestar konur á þessum tíma, lifði ekki við fátækt eða lítil efni eins og margur Íslendingurinn. Á þessum árum höfðu konur almennt ekki kost á langskólanámi, hvað þá erlendis. Það hlýtur eðli málsins samkvæmt að hafa haft áhrif á hennar val og hennar sterku skaphöfn.

Seigla

Hún ruddi ekki eina braut heldur nokkrar, þó ekki án mótlætis. Hún efldist við mótlæti og stóð keik þrátt fyrir óvægnar árásir. Ekki síst þegar hún fór að gera sig gildandi og taldi sig eiga erindi sem forseti landsins. Seigla er kannski orðið sem lýsir henni best, innri styrkleiki og þrautsegja. Seigla er sannarlega ekki síður mikilvæg í dag en var á árum áður, þegar við vorum fátæk þjóð í baráttunni við náttúruöflin.

Jafnrétti. Ísland best í heimi?

Iðulega skorar Ísland hæst þegar horft er til jafnréttis. Meðal annars er horft til árangurs kvenna á vinnumarkaði, þátttöku í stjórnmálum, menntun og launajafnréttis. Okkur ber að þakka fyrirmyndum eins og Vigdísi og öðrum konum sem ruddu leiðina. Sumar voru vissulega stundum með öfga, sumir myndu jafnvel kalla það dólgshátt, en slíkt er oft nauðsynlegt til að ná fram breytingum.

Feður, bræður, eiginmenn og synir

Ég vil ekki eingöngu þakka formæðrum okkar sem og batáttukonum sem síðar komu, sem sannarlega ruddu brautina, því á þessari braut voru einnig feður, bræður, eiginmenn og synir. Margur maðurinn var konum óþægur ljár í þúfu en aðrir hafa stutt við jafnréttisbaráttuna. Ég er þeim líka þakklát. Sá árangur sem hefur náðst í jafnréttisbaráttunni hér á landi er sannarlega hvorki sjálfsprottinn né sjálfgefinn. Vissulega má ýmislegt betur fara en þegar við horfum á löndin í kringum okkur erum við sannarlega öfundsverð. Fyrir það er ég þakklát, það er mikilvægt að virða og varðveita, því þessi árangur hefur sannarlega kostað, blóð, svita og tár.

Nýjast