Fylgdu draumnum þínum, þú munt ekki sjá eftir því!
Ég heiti Serena Pedrana og kem frá litlu þorpi á Norður-Ítalíu sem heitir Livigno. Heimabærinn minn er falleg skíða- og gönguparadís í Ölpunum 1816 metra yfir sjávarmáli, staðsettur í löngum dal umkringdum fjöllum við landamærin að Sviss. Ég flutti til Íslands fyrir meira en 6 árum. Kærastinn minn tók mig upphaflega til Íslands í stutt ferðalag og tveimur árum seinna fluttum við til Akureyrar.
Það var auðveld ákvörðun fyrir okkur, einfaldlega það rétta í stöðunni. Akureyri er okkar heimili og hefur okkur alltaf fundist það. Ég hef haft brennandi áhuga á mat frá því að ég man eftir mér en ég gerði mér ekki grein fyrir að eldamennska yrði að mínu starfi fyrr en ég byrjaði með Orðakaffi fyrir 4 árum. Litla kaffihúsið mitt á bókasafninu hefur þróast frá opnun sinni í desember 2016 og margt hefur breyst. Það er þó eitt sem hefur aldrei breyst: ástríða mín fyrir því að bjóða upp á heimagerðan, ljúffengan mat. Markmið mitt er að maturinn sem ég ber fram sé einfaldur, fallegur og auðvitað bragðgóður.
Eftir að ég byrjaði með kaffihúsið kviknaði enn meiri forvitni á mat, hvernig hann er framleiddur en líka hvernig matur hefur áhrif á heilbrigði, líkama og sál. Ég hef lesið fjölda bóka og rannsókna ásamt því að horfa á fjölbreyttar heimildarmyndir um mat. Það hefur gefið mér nýtt sjónarhorn og hugmyndir um hvað ég vil að kaffihúsið standi fyrir. Árið 2020 hefur verið erfitt en það hefur kennt okkur að við þurfum að gæta heilsu okkar og það getum við meðal annars gert með því að velja góðan, næringarríkan mat. Þannig fær líkaminn gott eldsneyti og við fáum tækifæri til heilbrigðis, hamingju og vellíðan. Lífstíll okkar hefur einnig mikið áhrif á umhverfi okkar. Það er nauðsynlegt að temja okkur vistvænan og sjálfbæran lífstíl og mataræði er stór hluti af þessum. Eftirspurn eftir jurtafæði hefur aukist gríðarlega á síðustu árum, fjölda nýrra veitingastaða í Reykjavík hafa opnað sem leggja áherslu á rétti fyrir grænmetisætur og grænkera.
Þegar Orðakaffi opnaði aftur í janúar á þessu ári voru gerðar töluverðar breytingar. Orðakaffi varð nefnilega fyrsti veitingastaðurinn á Akureyri sem býður einungis upp á grænmetisrétti. Fólk hefur verið áhugasamt um breytinguna og flestir hafa tekið þeim einstaklega vel. Maturinn okkar er fyrir alla, hvort sem að þú sért grænmetisæta, grænkeri eða kjötæta. Flestir viðskiptavinir okkar borða ekki einungis jurtafæði en njóta þess að koma og borða heimagerðan mat í glaðlegu andrúmslofti. Orðakaffi er staðsett í Brekkugötu 17 í sama húsnæði og Amtsbókasafnið á Akureyri. Kaffihúsið er opið frá 10:00 til 17:00 alla virka daga. Boðið er upp á heitan mat í hádeginu, hádegishlaðborðið okkar er þekkt fyrir að vera næringarríkt og litríkt en því fylgir fjölbreytt salat, nýbakað brauð og staðbundið, ristað kaffi. Okkar sérgrein eru ítalskar, heimabakaðar kökur og súkkulaðitrufflur sem hægt er að panta á vefsíðunni www.ordakaffi.is eða hafa samband í gegnum facebook eða instagram. Það nýjasta nýtt hjá okkur er svo spínat-og sveppabaka. Ég og kaffihúsið erum í stöðugri þróun en markmið mitt er að verða sífellt sjálfbærari með lífrænum og staðbundnum vörum og hvetja fólk til að borða hollan mat. Það geri ég með því að bjóða upp ferskan og heimagerðan mat í amstri dagsins en svo legg ég mitt af mörkum í umhverfismálum.
Ég er stolt að Orðakaffi sé almennt þekkt sem umhverfisvænt kaffihús. Matarsóun er eitt stórt og alvarlegt vandamál, 3,5 milljónir tonn af mat sóast á hverju ári og það aðeins á Norðurlöndunum. Að forðast matarsóun er mjög krefjandi í veitingageiranum þar sem maður veit aldrei hversu margir munu koma. Og þú vilt helst ekki lenda í því að hafa ekkert til að bjóða upp á. Þar af leiðandi verða oft til afgangar sem enda því miður alltof oft í ruslinu. Á Orðakaffi forðumst við hins vegar að henda mat og reynum að nýta afganga, sem geta nefninlega verið algjörar gersemar og oft er hægt að búa til eitthvað nýtt og spennandi úr rétti dagsins fyrir morgundaginn. Stundum er líka matur betri daginn eftir þegar bragðið hefur sest betur. Akureyri er bæjarfélag þekkt fyrir endurvinnslu og sinnum við því samviskusamlega á Orðakaffi. Enn fremur reynum við að draga úr framleiðslu úrgangs með því að minnka neyslu.
Við hvetjum viðskiptavini til að koma með eigin fjölnota ílát og kaffikrús og bjóða 5% afsláttur til að forðast notkun á einnota ílátum. Þetta er ástand þar sem allir græða, þú sparar peninga og mengar minna! Ég persónulega hef líka nýlega keypt rafmagnshjól til að gera mitt besta til að vera sjálfbærari. Ég þarf að fara að versla næstum daglega og fara á hjóli mengar ekki aðeins minna heldur gefur það mér líka tækifæri til að æfa og anda að mér fersku lofti.