FVSA kannar áhuga stéttarfélaga á Norðurlandi til sameiningar
„Þetta er hugmynd sem vert er að skoða og fróðlegt að sjá hver viðbrögð félaganna verða,“ segir Eiður Stefánsson, formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni (FVSA). Nýlega sendi hann erindi til tíu stéttarfélaga á Norðurlandi til að kanna vilja þeirra til samtals um útfærslu á öflugu deildarskiptu stéttarfélagi á svæðinu.
Eiður segir samtalið á byrjunarstigi, erindið sé nýlega farið út og að viðbrögð hafi ekki enn komið fram nema í litlum mæli. Félagssvæði stéttarfélaganna er frá Blönduósi í vestri að Þórshöfn í austri. Samtals er fjöldi félagsfólks um 17 til 18 þúsund og starfsmenn ríflega þrjátíu, fjölmennasta félagið er Eining-Iðja.
Sérþekking starfsfólks nýtist betur
Eiður kveðst talsmaður þess að sameina stéttarfélög og gera þau öflugri. „Félögin eru sterk fjárhagslega og öflug á sínu sviði, það eru því ekki fjárhagsleg rök að baki því að kanna vilja annarra til sameiningar. Hvatinn er frekar tækifærið til efla sérhæfingu starfsfólks með það að leiðarljósi að bjóða enn betri þjónustu. Í minni rekstrareiningum sinnir starfsfólk mörgum ólíkum verkefnum og þarf að hafa þekkingu á fleiri en einu sviði. Bæði rekstrarformin hafa kosti og galla, en ég tel það þess virði að kanna þennan möguleika, ekki síst með það í huga að félagsfólk á landsbyggðinni eigi sér öflugan málsvara,“ segir hann.
Fleiri kostir í boði
Eiður nefnir að fjölmörg félög verslunar- og skrifstofufólks hafi gengið inn í VR, m.a. félög af Suðurnesjum, Suðurlandi og að hluta til frá Austurlandi. „Þetta er möguleiki sem einnig kemur til greina fyrir FVSA, en um tíðina höfum við reglulega kannað hug félagsfólks til sameiningar, annaðhvort við VR eða í deildarskiptu svæðisfélagi“ segir hann og bætir við að í vikunni hafi ný könnun verið send út til félagsfólks þar sem m.a. er spurt um vilja þeirra í þessum efnum.
„Með því að óska eftir samtali við önnur stéttarfélög á norðanverðu landinu erum við að kanna vilja þeirra til hugsanlegrar sameiningar. Það er ógjörningur að segja til um niðurstöðuna, en það er mikilvægt að halda möguleikanum opnum“ segir Eiður.