Frumkvöðlasetur Driftar EA formlega opnað

Kristján Vilhelmsson, Sesselja Barðdal Reynisdóttir framkvæmdastjóri Driftar, Þorsteinn Már Baldvins…
Kristján Vilhelmsson, Sesselja Barðdal Reynisdóttir framkvæmdastjóri Driftar, Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Þór Júlíusson stjórnarformaður Driftar. Samherjafrændurnir Kristján og Þorsteinn eiga félagið

Frumkvöðla- og nýsköpunarsetur Driftar EA hefur formlega verið opnað, en í dag standa dyr opnar fyrir gesti og gangandi að skoða glæsilega aðstöðu og kynna sér hvað í boði er, en frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum geta fegnið ráðfjöf og aðstoð við fjármögnun auk aðgangs að öflugu tengslaneti og góðri vinnuaðstöðu.

 

Drift EA verður með aðsetur í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg á Akureyri en fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf., sem er að hluta til í eigu sömu aðila, festi kaup á húsnæðinu í lok árs 2022. Unnið hefur verið að gagngerum endurbótum húsnæðisins, þannig að það þjóni sem best metnaðarfullri starfsemi Driftar EA.

 

Starfsemin er tvíþætt, annars vegar er í boði vinnurými á efstu hæð sem nefnist Messinn, en einnig er í boði heildstætt stuðningsumhverfi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki með sérstaka áherslu á verkefni sem styðja við vöxt og þróun á Eyjafjarðarsvæðinu. DriftEA býður upp á handleiðslu, glæsilega vinnuaðstöðu, aðgang að öflugu tengslaneti og aðstoð við fjármögnun.

Gefa til baka

Stofnendur Driftar EA eru frændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson en á síðasta ári voru liðin 40 ár frá því gengið var frá kaupum á Samherja hf. og starfsemin hafin á Akureyri. Drift EA var  stofnað í tilefni þeirra tímamóta og í þakklætisskyni við íbúa og fyrirtæki á starfssvæði Samherja. Félagið er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun með það að markmiði að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu. Tilgangurinn með stofnun félagsins er að gefa til baka til samfélagsins en um leið skapa tækifæri og byggja upp atvinnugreinar á Eyjafjarðarsvæðinu.

Nýjast