Frumkvöðlasetur Driftar EA formlega opnað

Frumkvöðla- og nýsköpunarsetur Driftar EA hefur formlega verið opnað, en í dag standa dyr opnar fyrir gesti og gangandi að skoða glæsilega aðstöðu og kynna sér hvað í boði er, en frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum geta fegnið ráðfjöf og aðstoð við fjármögnun auk aðgangs að öflugu tengslaneti og góðri vinnuaðstöðu.
Drift EA verður með aðsetur í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg á Akureyri en fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf., sem er að hluta til í eigu sömu aðila, festi kaup á húsnæðinu í lok árs 2022. Unnið hefur verið að gagngerum endurbótum húsnæðisins, þannig að það þjóni sem best metnaðarfullri starfsemi Driftar EA.
Starfsemin er tvíþætt, annars vegar er í boði vinnurými á efstu hæð sem nefnist Messinn, en einnig er í boði heildstætt stuðningsumhverfi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki með sérstaka áherslu á verkefni sem styðja við vöxt og þróun á Eyjafjarðarsvæðinu. DriftEA býður upp á handleiðslu, glæsilega vinnuaðstöðu, aðgang að öflugu tengslaneti og aðstoð við fjármögnun.
Gefa til baka
Stofnendur Driftar EA eru frændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson en á síðasta ári voru liðin 40 ár frá því gengið var frá kaupum á Samherja hf. og starfsemin hafin á Akureyri. Drift EA var stofnað í tilefni þeirra tímamóta og í þakklætisskyni við íbúa og fyrirtæki á starfssvæði Samherja. Félagið er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun með það að markmiði að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu. Tilgangurinn með stofnun félagsins er að gefa til baka til samfélagsins en um leið skapa tækifæri og byggja upp atvinnugreinar á Eyjafjarðarsvæðinu.