Freyvangsleikhúsið frumsýnir Fólkið í blokkinni í kvöld
„Við völdum þetta verkefni af því það er svo skemmtilegt, fullt af fjöri, mikil og góð tónlist út sýninguna þannig að engum ætti að leiðast, „ segir Jóhanna Ingólfsdóttir formaður Freyvangsleikhússins en frumsýning á leikverkinu Fólkið í blokkinni verður í Freyvangi í kvöld, föstudagskvöld 24. febrúar kl. 20.
Jóhanna segir að leikverkið um Fólkið í blokkinni sé alls ekki eins og þættirnir sem margir þekkja og voru sýndir á RÚV og það er heldur ekki eins og samnefnd bók. „Þetta er allt annað,“ segir hún en leikgerðin snýst um fólk sem býr í sömu blokk og ákveður að setja upp söngleik. „Persónur eru að hluta til hinar sömu og í bókinni og húmorinn er sá sami.“
Smásagnasafn um Fólkið í blokkinni kom út árið 2001 en leikgerðin var fyrst sýnd hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 2008. Henni var fylgt eftir með útgáfu á diski með lögum úr verkinu. Þættirnir sem voru 6 talsins, nutu mikilla vinsælda og voru sýndir hjá RÚV árið 2013.
Jóhanna segir að Freyvangsleikhúsið leggi mikið upp úr tónlist og söng og því hafi verkið hentað prýðilega. Alls taka 15 manns þátt í uppsetningunni og er fjögurra manna hljómsveit á sviðinu allan tímann, en hljóðfæraleikarar eru jafnframt leikarar, hluti af fólkinu í blokkinni. „Það er mjög skemmtileg persónusköpun í þessu leikverki, fólk þekkir marga ágætlega, einkum úr þáttunum, en höfundurinn Ólafur Haukur Símonarson er sérfræðingur í því að búa til kostulegar persónur, ýktar staðalímyndir sem jafnan slá í gegn,“ segir hún.
Leikstjóri er Kolbrún Lilja Guðnadóttir, sem leikstýrir hjá áhugaleikfélagi í fyrsta sinn nú, en hún kennir við Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar og hefur sett upp nokkrar sýningar með framhaldsskólanemum. „Við erum mjög ánægð með hana, Kolbrún er rétt að verða þrítug en ferst þetta mjög vel úr hendi, við hlökkum mikið til að hefja sýningar á þessu verki,“ segir Jóhanna.
Hjartnæm saga um skrautlegt líf
Sagan er hjartnæm og líf fólksins í blokkinni er skrautlegt. Hjónin Tryggvi og Solla eru með tvo unglinga, Söru og Óla koma við sögu. Einnig Hárfinnur hárfíni sem er í forsvari fyrir hljómsveitina Sóna sem æfir stíft í kjallaranum á meðan Robbi húsvörður reynir ólmur að koma í veg fyrir að söngleikurinn komist á koppinn og hefur almennt allt á hornum sér. Þá reynir sjarmörinn Hannes allt hvað hann getur til að ganga í augun á Söru. Slagarar eins og Hárfinnur hárfíni, Ofurmennið og að sjálfsögðu Fólkið í blokkinni hljóma við Freyvang næstu helgar. Tónlistarstjóri er Atli Rúnarsson sem einnig leikur á trommur, en aðrir í hljómsveitinni eru Björn Hreinsson, píanó, G. Bjarmi Gunnarsson, gítar, Bergsveinn Þórsson, bassi og Helgi Þórsson söngur.Sýna fram yfir páska
Jóhanna segir að um tíðina hafi metnaður einkennt starfsemi Freyvangsleikhússins og hann sé til staðar nú sem endanær. „Við höfum boðið upp margar góðar sýningar á liðnum árum, það hefur alltaf verið mikill metnaður fyrir hendi í félaginu, hér er ekki verið að gera hlutina með hangandi hendi,“ segir hún
Miðaverð er hið sama og verið hefur mörg undanfarin ár, en Jóhanna segir að allt sé gert til að halda verði í lágmarki og gera fólk kleift að eiga góða stund í Freyvangsleikhúsinu. „Sala fer vel af stað og við gerum ráð fyrir að sýna eitthvað fram yfir páska,“ segir hún en sýnt er á kvöldin um helgar. Þegar eru eldri borgarar búnir að panta eina dagsýningu og kaffihlaðborð með. „Við reynum að verða við öllum óskum, viljum að allir séu ánægðir,“ segir hún og bætir við að andinn í Freyvangsleikhúsinu sé góður og ef baka þurfi kökur þá sé fjöldinn allur af fólki tilbúið til að leggja lið.