Fréttatilkynning Farsælt ástarsamband elur af sér nýtt afkvæmi
Langlíft og farsælt ástarsamband Síríus súkkulaðisins og íslenska lakkríssins er vel þekkt meðal þjóðarinnar. Nú hefur þetta samband getið af sér nýtt og gómsætt afkvæmi, Eitt Sett Drumba. Drumbarnir eru ljúffengir, súkkulaðihjúpaðir karamelludrumbar með lungamjúkum lakkrískjarna.
Akureyringurinn Selma Sigurðardóttir er vörumerkjastjóri hjá Nóa Síríus: „Það er ofboðslega gaman að vinna með svona rótgróið vörumerki eins og Eitt Sett, og finna á því nýja fleti. Ég heyrði oft sögur af því frá mér eldra fólki hér áður að fólk hafi farið út í sjoppu á Akureyri til að kaupa Síríuslengju og mjúkan lakkrísborða til að borða þetta tvennt saman. Það er skemmtileg staðreynd að sá siður varð svo til þess að Eitt Sett fæddist.“ segir Selma og bætir við að það séu vissulega forréttindi að fá að halda utan um sumar af eftirlætisvörum þjóðarinnar.
Eins og Selma kemur inn á þá hófu íslensk ungmenni tóku að para saman Síríuslengjur og lakkrísborða fyrir margt löngu síðan. Sú uppfinningasemi var kveikjan að Eitt Sett fjölskyldunni sem nú telur fimm vörur: Hina klassísku Síríuslengju með lakkrísborðanum, Eitt Sett súkkulaðiplötuna, Eitt Sett Töggur og Eitt Sett bita í endurlokanlegum pokum. Að lokum er það svo nýjasti fjölskyldumeðlimurinn, Eitt Sett Drumbar. Þessa súkkulaðihjúpuðu karamelludrumba með lungamjúkum lakkrískjarna má nú finna í öllum helstu verslunum norðan heiða.