Framtíð Iðnaðarsafnsins á Akureyri sem og Smámunasafns Sverris Hermannssonar, einnig Wathnehússins
Hugleiðingar.
Iðnaðarasafnið
Eins og flestur er kunnugt er framtíð Iðnaðarsafnsins á Akureyri í miklu uppnámi vegna fjárskorts.
Nú þegar þessi orð eru sett á blað höfum við ekki heyrt eitt einasta orð frá Akureyrarbæ og bréfi okkar til allra bæjarfulltrúa hefur enn ekki verið svarar.
Verði þessu safni lokað verður mjög merkileg iðnaðarsaga Akureyrar sett niður í kassa og sennilega aldrei tekin upp aftur. Iðnaðarsafnið á Akureyri hefur nú í tæp 25 ár safnað munum og mynjum ásamt frásögnum af sögu sem er svo merkileg og eiginlega má segja með sanni að saga Akureyrar væri öðuvísi og mikið litlausari ef iðnaðarsaga þess væri ekki tiltæk.
Það er einmitt orðið tiltæk sem klingir í eyru vegna þess að Jón heitinn Arnþórsson var svo framsýnn á sínum tíma og bjargaði ómetanlegum heimildum, sögu, munum og minjum á sínum tíma sem svo samankomin varð að Iðnaðarsafninu á Akureyri sem varð til á þjóðhátíðardegi okkar árið 1998.
Allar götur síðan hefur safnið haldið áfram að skrá og setja upp söguna af iðnaðarbænum Akureyri sem allir og ég endurtek allir eru sammála um að bærinn okkar hafi svo sannarlega verið, iðnaðarbærinn, og því er safnið svo merkilegt fyrir nýlifandi og ekki síður komandi kynslóðir að fá tækifæri til að upplifa og sjá veröld sem var og Akureyri er svo sannarlega sprottið af.
Akureyrarbær hefur ljáð safninu lengi húsnæði og hefur styrkt safnið með miklum myndarskap og ber að þakka það, en í heimi þeim sem við búum í í dag er safnið á þeim stað að fjármagn vantar til að halda úti starfsmanni /mönnum.
Safnið verður að hafa að algjöru lágmarki einn fastan starfsmann allt árið en í fullkomnum heimi væri hálft stöðugildi til viðbótar ákjósanlegt.
Safnastarf er svo miklu meira en bara opnunartími fyrir gesti, því til að sagan haldi áfram að dafna, eflast og halda í við tíðarandann á hverjum tíma, þarf að vinna mikla vinnu, vinnu sem á stundum er svo ósýnileg, það þarf að sækja muni, skrá þá, ljósmynda og koma upp í sýningarsölum, auk breytinga á sýningum sem þurfa að vera reglulega.
Svo er einn hluti starfsins á safninu að taka viðtöl við eldri iðnaðarmenn og konur og þessi hluti safnastarfsins er svo gríðarlega merkilegur og ómetanlegur og það sem nú þegar hefur verið skráð af viðtölum eru sögur sem segja svo merkilega sögu sem aldrei hafa birst áður.
Að þessu sögðu þarf svo ekkert að ræða hér að viðhald á sýningarsal með þrifum er gríðarlegur og það starf er svo gjörsamlega vanmetið þegar talað er um safnastarf.
Því er það einlæg ósk okkar að bæjaryfirvöld á Akureyri geri sér grein og ekki bara í orði, heldur verki og athöfnum hversu dýrmætur hluti af bænum okkar fellst í Iðnaðarsafninu og okkar ágætu bæjarfulltrúar líti á safnið sem eign sem hlúa beri að ekkert síður en að KA og Þór t.d og eða listasafninu svo einhver sambærileg samtök og stofnanir sé nefnd sem sannarlega eru góð og gild í bæ sem flaggar kjörorðinu „öll lífsins gæði“
Til að Iðnaðarasafnið eitt og sér haldi áfram að lifa þarf að leggja til um það bil 10 milljónir króna á ári vegna starfsmannahalds og er það í raun hlægileg lág upphæð þegar allt það mikla og dýrmæta hlutverk safnið hefur, í að segja söguna sem var og ekki síður í að halda áfram að vernda söguna því sannarlega er sagan lifandi og verður það áfram á meðan Akureyri byggist.
Um nýsamþykkta safnastefnu Akureyrarbæjar 2022-2026 ætla ég ekki að hafa nein orð, kannski segir það hug minn til þeirrar stefnu.
Smámunasafn Sverris Hermannssonar.
Þá að öðru safni og ekki síður merkilegu en það er smámunasafns Sverris Heramannssonar sem líkt og Iðnaðarsafnið hefur verið til umræðu síðustu misseri og framtíð þess er í algjöru uppnámi.
Nú ætla ég ekki að ræða fortíðina og tilurð þess að safnið lenti fram í Eyjafjarðarsveit, heldur vil ég horfa til framtíðar og leggja fram hugmyndir um fallega sviðsmynd sem ég tel að muni ekki bara bjarga þessum tveimur söfnum, heldur líka ef af verður muni þær sýna metnað, stórhug og ekki síður virðingu bæjarins til þessarra tveggja safna og þeirra merku sögu sem söfnin standa fyrir og hafa gert með miklum myndarskap.
Í mínum fallega hugsjónum myndi ég vilja að Akureyrarbær myndi hefja viðræður við Eyjafjarðarsveit um að yfirtaka smámunasafnið og færa það á Krókeyrina og sameina það Iðnaðarsafninu.
Í Innbænum á safnið hans Sverris Hermannssonar heima.
Til þess þyrfti reyndar að byggja við núverandi húsnæði Iðnaðarsafnisns. Það er alveg kristalstært að sameinuð myndu þessi söfn styðja hvort annað, en ekki síður myndu þau geta með miklum myndarskap sagt svo merkilega sögu sem þessi bæði söfn hafa verið að gera alla tíð.
Í raun væri alveg í lagi að endurskýra þessi söfn bæði og skýra þau Iðnaðar og listasafn Sverris Hermannssonar því það má alveg færa fyrir því sterk rök að uppsetning safns Sverris er ekkert annað en tær list, og á margt er þar er fyrir augun ber ekki neina hliðstæðu í víðri veröld.
Wathneshúsið.
Þessu til viðbótar vil ég nefna svokallað Wathnehús, sem stendur og hefur staðið á lóð Iðnaðarsafnsins á Akureyri í rúm 20 ár.
Þetta hús sem byggt var árið 1895 á svo merka sögu í sögu iðnaðar á Oddeyrinni hér í bæ að það er eiginlega grátlegt að horfa upp á húsið ár eftir ár grotna niður. Svo merk saga skipasmíðaiðnaðar sem var gríðarlegur á síðustu öld er þessu húsi tengt órjúfanlegum böndum.
Ég vil sjá þetta hús verða fært á steyptan grunn hér á safnalóðinni og það hús gæti sagt svo merkilega sögu af sjálfu sér eitt og sér, en þar fyrir utan gæti saga sjávarútvegs og skipasmíða á Akureyri 20 aldar vel átt heima inni í þessu húsi.
Í hluta þess væri hægt að setja á stofn litla bátasmiðju og þar væri hægt að skapa aðstöðu fyrir fólk sem vildi vinna minniháttar handverk í tré, líkansmíði t.d. og margt fleira væri hægt að nefna.
Endurbætur á þessu húsi gæti til dæmis verið unnið í samvinnu og samstarfi við tréiðnaðardeild verkmenntaskólans á Akureyri og fleiri deilda þess ágæta skóla, og vegna aldurs hússins mætti eflaust leita til annað hvort eða beggja, húsfriðunarnefndar og eða Minjaverndar við uppbygginguna.
Vei ég einnig að eldri iðnaðarmenn hér í bæ sem hættir eru að vinna hafa sagst myndu leggja hönd á plóg stæði til að endurbyggja þetta hús sem sagt dagvistun eldri iðnaðarmanna.
Þessar þrjár einingar, Iðnaðarsafnið, smámunasafn Sverris Hermannssonar og Wathnehúsið gætu sannarlega orðið stórsafn á íslenskan mælikvarða og það er sorglegt ef bæjaryfirvöld á Akureyri sjá ekki það gullna tækifæri sem hér gefst, kannski bara akkúrat á þessu tímapunkti til að sýna nú dug, metnað og virðingu fyrir þessu merka starfi sem hefur hér verið tæpt á.
Fljótt á litið sýnist mér að tvö stöðugildi myndu duga þessari einingu sameinaðri, en vissulega væri hægt að nýta skólakrakkar yfir sumarmánuðina sem og verið hefur.
Einnig er vert að geta þess að hinir svokölluðu hollvinir Iðnaðarsafnsins myndu og hafa verið ómetanleg stoð í rekstri Iðnaðarsafnsins og myndu ef að þessi sviðsmynd myndi verða að veruleika halda því mikla starfi áfram.
Sannarlega kostar að reka svona safn, en við skulum ekki gleyma því heldur að svona glæsileg framtíðarsýn er hér er sett fram í algjöru raunsæi því þetta er hægt, það þarf bara viljann til og sannarlega myndi þessi eining auka hróður Akureyrar enn frekar.
Það er hinsvegar vissa mín að ef söfnin er hér um ræðir, Iðnaðar - og safn Sverris Hermannssonar verða lokuð muni þau ekki opna aftur og sú saga sem þau hafa að geyma mun glatast að eilífu, sömu örlög munu bíða Wathnehússins.
Höfum við Akureyringar efni á því ?
Sigfús Helgason safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri.