Frá sveitaþorpinu Gurb til Akureyrar og að lokum Brussel

Adrià Medina Altarriba  er ungur og efnilegur lögfræðingur frá litla sveitaþorpinu Gurb í Pýreneafjö…
Adrià Medina Altarriba er ungur og efnilegur lögfræðingur frá litla sveitaþorpinu Gurb í Pýreneafjöllum Katalóníu, nálægt borginni Vic.

Adrià Medina Altarriba er ungur og efnilegur lögfræðingur frá litla sveitaþorpinu Gurb í Pýreneafjöllum Katalóníu, nálægt borginni Vic. Hann hefur lokið BA-gráðu í lögfræði með aukagrein í þjóða- og evrópurétti, BA-gráðu í alþjóðasamskiptum og meistaragráðu í lögfræði frá Sjálfstæða háskólanum í Barcelona. Nú er hann á síðasta ári í meistaranámi í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri.

Adrià Medina Altarriba er ungur og efnilegur lögfræðingur frá litla sveitaþorpinu Gurb í Pýreneafjöllum Katalóníu, nálægt borginni Vic. Hann hefur lokið BA-gráðu í lögfræði með aukagrein í þjóða- og evrópurétti, BA-gráðu í alþjóðasamskiptum og meistaragráðu í lögfræði frá Sjálfstæða háskólanum í Barcelona. Nú er hann á síðasta ári í meistaranámi í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri.

Frá Akureyri til Brussel Fyrir skömmu var Adrià valinn úr fjölda umsækjenda í starfsnám í svokölluðu EC Blue Book Programme hjá Utanríkisþjónustu Evrópusambandsins (ESB).

Blue Book starfsnámsáætlunin er fimm mánaða launuð starfsþjálfun sem boðið er upp á af Framkvæmdastjórn ESB. Áætlunin er mjög eftirsótt og samkeppnin um stöðurnar er mikil. Í ár sóttu 16.000 umsækjenda um sem er metfjöldi. Helstu verkefni Adrià verða að fylgjast með pólitískum málum tengdum samskiptum ESB við Ísland, Liechtenstein, Noreg, EES, Sviss, Andorra, Mónakó, San Marínó, Páfagarð, Færeyjar, auk mála er varða þátttöku ESB á norðurslóðum.

„Reynslan sem aðstoðarkennari í Evrópurétti, nám mitt í heimskautarétti við HA og tungumálakunnátta höfðu mikið að segja varðandi ráðninguna. Nám í heimskautarétti hefur veitt mér víðtæka hagnýta þekkingu á lögum og stefnumótun á norðurslóðum og Suðurskautslandinu. Með því að vera aðstoðarkennari í Evrópurétti fékk ég tækifæri til að nýta menntun mína á ESB-regluverkinu, læra af Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur prófessor og auka þekkingu á tveggja stoða uppbyggingu EES.“ Segir Adrià um reynsluna sem byggði undir ráðninguna.

Aðspurður um hvaða ráð hann hefur fyrir núverandi háskólanemendur sem hyggja á störf á alþjóðavettvangi, segir Adrià: „Verið meðvituð um tækifærin, þau eru mörg og birtast mánaðarlega, sérstaklega innan ESB og EFTA. Hver sem þú ert, þá skaltu vita þitt virði og láta önnur sjá það. Það er mikil samkeppni um störf tengd alþjóðasamskiptum með þúsundir umsækjenda um byrjunarstöður, en ég trúi samt að það sé staður fyrir öll sem vilja leggja hjarta sitt í það. Við erum öll sérhæfð á okkar hátt, finndu það sem þér líkar, gefðu því eins mikla athygli og þú getur ef þér finnst það færa þig nær markmiði þínu á þeim tíma og hugsaðu ekki um neina ákvörðun sem „ranga“.

Frá Spáni til Akureyrar

Hvers vegna velur ungur lögfræðingur frá Spáni að koma til Akureyrar að læra heimskautarétt? „Eftir að hafa útskrifast úr lögfræði vildi ég ekki fylgja hefðbundinni leið strax. Ég ákvað að fresta meistaranámi og lögmannsprófi á Spáni um eitt ár til að fylgja áhuga mínum á norðurslóðum. Ég valdi að leggja stund á alþjóðasamskipti og fékk tækifæri til að koma sem Erasmus+ skiptinemi í Háskólann á Akureyri og þar varð ég

hugfanginn af náminu, kennurunum, háskólanum og Akureyri. Það var því auðvelt val að koma aftur stuttu síðar í meistaranám í heimskautarétti.“

Síðastliðna mánuði hefur Adrià starfað á Hótel Kjarnalundi í útjaðri Akureyrar. „Á Kjarnalundi fann ég aðra fjölskyldu, árið 2021 kom ég fyrst sem gestur og í kjölfarið var mér boðið starf. Ég innritaði mig og skráði mig aldrei út. Að þrífa herbergi og íbúðir, þjóna við kvöldverð, þvo þvott og sjá til þess að viðskiptavinir væru ánægðir kenndi mér gildi þjónustunnar. Á Akureyri hef ég eignast marga vini, bæði Íslendinga og aðflutta. Það besta við Akureyri er opna samfélagið, hin mikla náttúrufegurð og sú staðreynd að hún er 1000 sinnum betri en Reykjavík.“

„Ég er ekki alveg viss um hvað framtíðin ber í skauti sér en ég er nægjusamur, ég myndi bara vilja hafa starfsferil sem leyfir mér að heimsækja vini mína í fallega Eyjafirði, að minnsta kosti einu sinni á ári og halda áfram að hjálpa til við að sækja kindurnar á haustin í göngum. Ég myndi vilja eiga lítið býli einhvern tímann á ævinni. Ég get verið svolítill vinnualki og blómstra þegar dagatalið mitt er fullt. Ég er alltaf að leita að nýjum áskorunum en ég ætla mér líka að læra að finna frið og hægja á mér, lífið á ekki eingöngu að snúast um starfsferil,” segir Adrià að lokum um hvernig hann sér framtíðina fyrir sér.

Umsóknarfrestur í Polar Law 2025-2027 er til og með 1. apríl 2025 og allar frekari upplýsingar um kröfur, umsóknargátt og námið má sjá á vefsíðu skólans, unak.is.

Nýjast