Frá sjómennskunni á Raufarhöfn í sjávarútvegsfræði

Sandra Björk Kristjánsdóttir á Nýnemadögum                             Myndir aðsendar
Sandra Björk Kristjánsdóttir á Nýnemadögum Myndir aðsendar

Háskólinn á Akureyri er kominn á fullt og aldrei hafa fleiri stúdentar verið við nám í skólanum. Það sést glögglega á göngum HA þar sem ekki er þverfótað fyrir fólki að vinna, bæði í hóp- og einstaklingsverkefnum. Staðreyndin er sú að margir stúdentar kjósa að stunda nám sitt á staðnum, mæta í kennslustundir og nýta sér aðstöðu háskólans. Þá mæta enn fleiri í lotur sem haldnar eru á staðnum reglulega yfir skólaárið.

 Tækifærin í tvöfaldri gráðu og tengslum við samnemendur

Ein þeirra sem hóf nám í grunnnámi nú á haustmisseri er Raufsarinn og Húsvíkingurinn ir. Hún er stúdent við Auðlindadeild og leggur stund á sjávarútvegsfræði og viðskiptafræði. Sandra flutti til Akureyrar til að stunda nám við HA og býr á stúdentagörðunum. „Ég er svolítið alin upp í sjávarútvegi en pabbi minn og bróðir eru báðir sjómenn og afi minn var sjómaður á Raufarhöfn og átti bæði útgerð og bát. Ég valdi að taka tvöföldu gráðuna, sem sagt tvær háskólagráður á fjórum árum. Mér fannst það hljóma sem skynsamlegt val og fannst tilvalið að grípa þetta tækifæri hjá HA og opna því vonandi fleiri dyr að námi loknu.“

Sandra tók fullan þátt í Nýnemadögum sem hafa það að markmiði að auðvelda stúdentum að hefja nám og kynnast samnemendum og starfsfólki. „Mér fannst Nýnemadagar mjög fínir, það var mjög gott að sjá öll andlit háskólans og fá almenna kynningu fyrir fyrsta skóladaginn,“ segir Sandra. Það sem stóð upp úr hafi þó klárlega snúið að félagslífinu. „Ef dagskrá SHA og Stafnbúa er tekin með þá stóð nýnemakvöld Stafnbúa, félags stúdenta við Auðlindadeild, klárlega upp úr. Við fórum í PubQuiz, fengum fljótandi veigar, sungum í karaoke og á þeim viðburði fékk ég tækifæri til að kynnast stúdentum, sem var frábært.“

 Smá brekka að byrja í háskóla en ætlar að hafa gaman

 Sandra ætlar að taka virkan þátt í námssamfélaginu í HA en hún er nýkjörin nýnemafulltrúi Stafnbúa. „Fyrstu dagarnir í HA eru búnir að vera mjög fínir. Það er vissulega smá brekka að byrja í háskóla og mikið að gera en mjög skemmtilegt.“

 Aðspurð um væntingar til komandi tíma segir Sandra að lokum: „Ég er í raun ekki með miklar væntingar aðrar en kannski þær að kynnast fólki, eignast góða vini, efla þekkingu mína og hæfni en fyrst og fremst að hafa gaman.“

Vel var mætt á Nýnemadaga

Nýjast