Formaður stjórnar Markaðsstofu Norðurlands vill að Isavia fjármagni verkefni við Flugklasa

Viggó Jónsson formaður stjórnar Markaðsstofu Norðurlands
Viggó Jónsson formaður stjórnar Markaðsstofu Norðurlands

„Með fullri sanngirni má spyrja sig að því hvort sveitarstjórnir á Norðurlandi eigi að fjármagna flug á Norðurland frekar en sveitarfélögin á suðvestur-horninu greiði til flugverkefna í Keflavík,“ sagði Viggó Jónsson formaður stjórnar Markaðsstofu Norðurlands á aðalfundi sem haldinn var í Hrísey. Þar sem hann gerði m.a. flugmálin að umtalsefni, umrót og áfangasigra á þeim vettvangi.

„Ég geri þá kröfu til yfirvalda að Isavia fjármagni þetta verkefni þannig að Norðurland eigi einhverja möguleika á að vaxa í þjónustu við ferðamenn, þetta getur ekki gengið svona áfram. Það er himinn og haf á milli Norður- og Suðurlands þegar kemur að tækifærum í ferðaþjónustu,“ sagði Viggó.

Formaðurinn segir að mikill árangur hefði náðst með því að Norðurland allt hefur verið markaðssett sem ein heild fremur en tvö svæði, vestra og eystra. Nefna megi í því sambandi Flugklasann Air 66N, samstarf skíðasvæða, fuglaskoðunarsvæði og einnig Norðurstrandarleið. „Ferðaþjónustan hefur verið í miklum vexti undanfarin ár en það hefur líka sýnt sig að ekkert er sjálfgefið. Því er samstarfið um þróun verkefna og markaðssetningu gríðarlega mikilvægt enda Norðurland í samkeppni við öflug svæði um allan heim.“

Lokað að helstu náttúruperlum yfir veturinn

Viggó nefndi að staða mála varðandi samgöngumál á Norðurlandi væri ekki að styðja við ferðaþjónustuna.“ Okkar helstu náttúruperlur eru lokaðar og óaðgengilegar stóran hluta ársins og veldur skortur á þjónustu vega hættulegum aðstæðum fyrir gesti okkar,“ sagði hann.

Nú væri komin tími á að bætt verði úr og vegir að Dettifossi og Hvítserk  gerðu þessa stóru segla aðgengilega, auk þess sem bæta þurfi þjónustu og vetraropnun á fjölda annarra staða. Opnun inn á Öskju væri annað stórt mál sem þyrfti að leysa svo ferðaþjónustuaðilar gætu aukið verðmætasköpun svæðisins með nýtingu þeirra auðlinda sem til staðar eru.

Nefndi Viggó að nú þegar útlit er fyrir samdrátt í ferðaþjónustu, ekki bara á Norðurlandi heldur landinu öllu væri nauðsynlegt að halda áfram að markaðssetja Norðurland sem áfangastað.  „Bæta þarf verulega í markaðssetningu á Íslandi í heild, nú þegar áskoranir blasa við á borð við eldsumbrot á Reykjanesi og hækkandi verðlag. Ísland hefur áður náð árangri með slíkum aðgerðum og nú er ekki tíminn til að slá slöku við.“

Nýjast