Forgangsverkefni að byggja upp lífsgæðakjarna á Akureyri

Líklegast er að fyrsti lífsgæðakjarninn á Akureyri rísi við Þursaholt í Holtahverfi norður.  Hér má …
Líklegast er að fyrsti lífsgæðakjarninn á Akureyri rísi við Þursaholt í Holtahverfi norður. Hér má sjá hugmyndir arkitektastofunnar AVH að mögulegri uppbyggingu á svæðinu.

Það er forgangsverkefni að mati bæjarráðs Akureyrar að lífsgæðakjarni fyrir eldri borgara verði að veruleika. Greining vegna uppbyggingar lífsgæðakjarna voru til umræðu á fundi ráðsins sem og tillögur frá starfshópi sem falið var að vinna málið. Tvö svæði þykja fýsilegust fyrir lífsgæðakjarna, Þursaholt í Holtahverfi norður og svæði milli Naustaborga og Hagahverfis. Uppbygging lífsgæðakjarna verður sett á starfsáætlun skipulagsráð fyrir árið 2025 og hyggst bæjarráð taka málið til umræðu á ný í janúar á næsta ári. Þá verður metið með hvaða hætti best sé að fylgja málinu eftir þannig að sem mestar líkur séu á að lífsgæðakjarni verði að veruleika eins fljótt og auðið er.

Lífsgæðakjarnar eru hugsaðir fyrir eldra fólk og er áhersla innan hans lögð á fjölbreytt búsetuform m.a. hjúkrunarheimili en markmiðið með slíkum kjörnum er að koma til móts við ólíkar þarfir fólks þegar árin færast yfir.

Á Akureyri búa nú tæplega 2750 einstaklingar sem eru 67 ára og eldri, en ef aldursmörk eru færð niður í 60 ár eru þeir 4.486 miðað við tölur frá í ágúst. Eldra fólki á eftir að fjölga á komandi árum í takt við betri lífsskilyrði þannig að hópurinn á eftir að stækka umtalsvert næstu árin.

Langflestir eldri borgarar á Akureyri búa í eigin húsnæði samkvæmt könnun sem Félag eldri borgara á Akureyri gerði fyrr á árinu og tæplega fjórðungur þeirra sem svaraði könnuninni telur mjög eða frekar líklegt að skipt verði um húsnæði á næstu þremur árum. Langflestir vilja áfram búa í eigin húsnæði en vilja gjarnan minnka við sig. Talsverður hópur horfir til þess að búa í þjónustuíbúð fyrir 60 ára og eldri.

Fyrsti lífsgæðakjarninn líklega við Þursaholt

Lóð við Þursaholt kemur sterklega til greina og samkvæmt fyrstu drögum sem fyrir liggja virðist sem þar sé kjörið að koma fyrir hjúkrunarheimili auk 40 til 60 íbúða og þjónustukjarna. Tvær lóðir aðrar eru við sömu götu sem eftir er að úthluta en þar væri hægt að byggja 15 íbúðir á hvorri lóð. Þetta svæði er lengst komið áleiðis í skipulagsferli en stefnt er að því að breyting á aðal- og deiliskipulagi klárist nú í lok nóvember.

Líklegast er að fyrsti lífsgæðakjarninn á Akureyri rísi við Þursaholt í Holtahverfi norður.

Nausta og Hagahverfi

Annað svæði sem talið er skynsamlegt að taka frá undir lífsgæðakjarna er á milli Nausta- og Hagahverfa. Líklegt er að uppbygging á því svæði hefjist ekki fyrr en eftir 5 til 10 ár, þar sem önnur byggingasvæði eru í uppbyggingu um þessar mundir. Stærð svæðisins hentar vel fyrir lífsgæðakjarna og nálægð við útivistarsvæði í Naustaborgum er kostur.

Annað svæði sem talið er skynsamlegt að taka frá undir lífsgæðakjarna er á milli Nausta- og Hagahverfa.

Svæði norðan Lögmannshlíðar

Í greiningu starfshópsins er einnig minnst á svæði vestan við Síðuskóla og norðan Lögmannshlíðar sé lóð þar sem gert var ráð fyrir að byggja 80 rýma hjúkrunarheimili á 4 hæðum. Lóðinni var úthlutað til ríkisins fyrir tveimur árum. Gert er ráð fyrir nokkrum raðhúsum nyrst á lóðinni, en þó ekki miklum fjölda. Svæðið þykir því ekki henta nægilega vel fyrir lífsgæðakjarna.

Tjaldstæðisreitur og Móahverfi

Þá kemur fram að Tjaldsvæðisreitur bjóði upp á fjölda möguleika en hugmyndir eru um að hluti þess svæðis verði undir íbúðir fyrir eldri borgara. Stefnt er að því að skipulag svæðisins verði tilbúið um mitt næsta ár en ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdir geta hafist, líklega ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2026.

Loks er nefnt að uppbygging sé hafin á nýju byggingasvæði í Móahverfi þar sem gert er ráð fyrir 4 til 5 hæða fjölbýlishúsum með íbúðir fyrir aldurshópinn 60 ára og eldri. Sama er uppi á teningnum varðandi Móahverfi og Tjaldsvæðareitinn, ekki liggur fyrir hvenær uppbygging þessara íbúða hefst en að líkindum ekki fyrr en eftir 3 til 5 ár.

Nýjast