Flugstrætó frá Akureyrarflugvelli í bæinn í boði í sumar

Jónas Þór Karlsson hjá Sýsli Ferðir og ökukennsla. Félagið mun í byrjun sumars bjóða upp á ferðir ti…
Jónas Þór Karlsson hjá Sýsli Ferðir og ökukennsla. Félagið mun í byrjun sumars bjóða upp á ferðir til og frá Akureyrarflugvelli. Flugstrætó hefur ekki áður verið í boði á Akureyri. Mynd/MÞÞ

mth@vikubladid.is

 „Þessi valkostur hefur ekki verið fyrir hendi áður en við höfum um skeið verið að skoða að koma þessari þjónustu af stað,“ segir Jónas Þór Karlsson hjá félaginu Sýsli – Ferðir og ökukennsla  sem í sumarbyrjun setur í flugstrætó í gang á Akureyri. Aksturinn hefst 1. júní næstkomandi. Vagninn tekur hring um bæinn og tengir helstu bæjarhluta, hótel og tjaldsvæði við flugvöllinn.

Jónas segir að strætó tenging hafi ekki áður verið í boði milli Akureyrarflugvallar og bæjarins, en þeir valkostir sem nú eru fyrir hendi eru m.a.  að aka sjálfur eða fá far, taka leigubíl eða ganga.

Tilraunaverkefni í sumar

„Við ákváðum að láta reyna á þetta núna þegar Niceair hefur starfsemi en þá má gera ráð fyrir meiri umferð um flugvöllinn. Fyrir Kóvid fóru um 184 þúsund farþegar um Akureyrarflugvöll, þeir voru um 140 þúsund í fyrra samkvæmt tölum frá ISAVIA og það er viðbúið að þessar tölur hækki umtalsvert í kjölfar auking flugs, bæði hjá Niceair og flugfélaga sem fljúga hingað beint,“ segir Jónas. Ekki sé í upphafi vitað nákvæmlega hver þörfin er, enda hafi þjónustu af þessu tagi aldrei verið í boði áður. "Þetta verður tilraunaverkefni í sumar og ef vel tekst til höldum við áfram.“

Akstur í tengslum við öll flug

Jóns segir að boðið verði upp á akstur í tengslum við öll flug. Áætlunin er þannig að vagninn byrjar á Tjaldstæðinu og tekur hring um bæinn um Naustahverfi, gegnum Brekkuna og út í Glerárhverfi en stoppar síðan við Hof áður en haldið er út á flugvöll.  Þessi leið er fyrir komu flugvéla og verður sama leið ekin til baka þegar vélar hafa lent.

Félagið hefur keypt strætisvagn sem notaður verður í þessum akstri. Sýsli -Ferðir og ökukennsla var stofnað árið 2019 og hefur boðið upp á ökukennslu og einnig dagsferðir. Þegar Kóvid skall á var farið að bjóða upp á hjólastólaþjónustu og er henni áfram sinnt og eru að mynda ýmsar dagsferðir í boði fyrir hjólastólanotendur. Þá segir Jónas að fyrirtækið veiti þeim bæjarbúum sem þjónustu, sem  þurfa að komast leiðar sinnar utan þess tíma sem ferliþjónustan starfi.

Nýjast