Fjölskylduvænna samfélag

Arna Ýr Arnarsdóttir
Arna Ýr Arnarsdóttir

Arna Ýr Arnarsdóttir skrifar

Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins segir að við munum útfæra mismunandi útfærslur á sumarlokunum leikskólanna og taka ákvörðun sem leiði til fjölbreyttari lausna til samverustunda fjölskyldufólks yfir sumartímann.

Með þessari setningu er margt ósagt þó sýn okkar sé skýr.

Okkar sýn er að við þurfum að búa barnafjölskyldum betra umhverfi í okkar sveitarfélagi. Ein leið til þess er að í stað fjögurra vikna sumarlokunar á leikskólum sveitarfélagsins, sé komið á sveigjanleika í frítöku barna frá leikskólastarfi. Þar með fá barnafjölskyldur tækifæri til að fjölga samverustundum sínum.

Núverandi fyrirkomulag reynist mörgum barnafjölskyldum erfitt. Stundum hefur aðeins annað foreldri tækifæri til að vera í orlofi á sama tíma og leikskólalokunin stendur yfir, jafnvel á hvorugt foreldrið möguleika á fríi þegar leikskólalokunin stendur yfir og þurfa jafnvel að ráða einhverja í að passa börnin á meðan á lokuninni varir.

En hvað sjáum við fyrir okkur? Við viljum vinna að verkefninu í samstarfi við leikskóla sveitarfélagsins og sjáum ýmsar leiðir færar til að draga fram vilja og óskir foreldra og starfsmanna sem leitt gætu til aukins sveigjanleika. Áður hafa verið lagðar kannanir fyrir foreldra þar sem þeir eru spurðir um fyrirkomulag á sumarlokunum og það er tímabært að gera það á ný.

Við sjáum áfram fyrir okkur að leikskólar loki yfir sumartímann og erum ekki að leggja til heilsársopnun leikskólanna, en við viljum stytta lokunartímann með því þó að barnið fái fjögurra vikna samfellt sumarfrí.

Sem dæmi mætti sjá fyrir sér að leikskólum yrði lokað í þrjár vikur í stað fjögurra og yrði fjórða vikan tekin öðru hvor megin við þriggja vikna lokunina. Mun færri börn yrðu í leikskólanum síðustu vikuna fyrir lokun og fyrstu vikuna eftir opnun þar sem stór hluti væri þá í orlofi með foreldrum sínum. Ásamt því væri hægt að bjóða upp á að skrá barn í sex vikna samfellt sumarfrí gegn niðurfellingu leikskólagjalda líkt og reynst hefur vel fyrir styttri frí síðastliðin tvö ár. Þetta gæti einnig komið til móts við sumarafleysingar í leikskólanum og sumarfríi leikskólastarfsmanna.

Með þessu værum við að stuðla að fjölskylduvænna samfélagi þar sem börnum gefst tækifæri til að njóta meiri tíma með foreldrum sínum.

Arna Ýr Arnarsdóttir

6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi.

Nýjast