Fjölbreyttur nóvember hjá MAk
Fjölbreyttir viðburðir eru framundan í Hofi og Samkomuhúsinu í nóvember. Herlegheitin hefjast strax í hádeginu í dag með Föstudagsfreistingum Tónlistarfélags Akureyrar. Það er Dúó Stemma sem leikur fyrir gesti. Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri sýnir uppfærslu sína á Litlu hryllingsbúðinni í Samkomuhúsinu bæði föstu- og laugardagskvöld kl. 20 en það eru síðustu sýningarnar.
Kröftugir tónar Karlakórs Eyjafjarðar óma í Hofi kl 15 á laugardaginn en þá koma saman nýir og gamlir kórfélagar og taka lagið í tilefni af 20 ára afmæli kórsins. Á sunnudaginn kl. 14 stíga Hymnodía og Vandræðaskáldin á stokk í Hofi þar sem haldið er uppá 100 ára fæðingarafmæli Kristjáns frá Djúpalæk. Jónína Björt mun þar syngja lög úr Pílu pínu úr hinu vinsæla leikverki MAk frá síðasta ári.