Fiðringsbikarinn til Húsavíkur
Fiðringur á Norðurlandi var haldinn í Hofi þriðja sinn í s.l. viku. Níu skólar af Norðurlandi tóku þátt í ár og sýndu afrakstur vinnu sinnar.
Fiðringur er hæfileikakeppni að fyrirmynd Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi. Í ár tóku níu skólar þátt en mikil áhersla er lögð á að hugmyndin og útfærslan sé alfarið unglinganna sjálfra og einnig sjá þau um tæknimál og búninga, leikmynd og förðun. Óhætt er að fullyrða að ungmennin blómstruðu á sviðinu í leik, dansi, söng og hljóðfæraleik.
Umfjöllunarefnin sem þau völdu sér voru ekkert léttmeti en þeim liggur greinilega margt og mikið á hjarta. Það var Borgarhólsskóli á Húsavík sem stóð upp sem sigurvegari en Fiðringur hefur verið skylduvalgrein meðal nemenda í áttunda, níunda og tíunda bekk, skólans. Leiðbeinandi hópsins var Arnþór Þórsteinsson.
Á vef Borgarhólsskóla segir að nemendur hafi samið sitt eigið atriði og hafa æft af kappi alla vorönnina undir handleiðslu Arnþórs en í vinnunni sé mikil áhersla lögð á sjálfstæð og lýðræðisleg vinnubrögð, hugmyndin og útfærslan kemur frá nemendum sjálfum. Þá hafi hópurinn einnig séð alfarið um listræna útfærslu hvað varðar búninga, leikmynd, sviðhreyfingar, ljós og hljóð. Siguratriði Borgarhólsskóla fjallaði um samspil einstaklinga og gervigreindar. Í öðru sæti lenti Oddeyrarskóli (í þriðja sinn!) og í þriðja sæti lenti Glerárskóli. Krakkarnir kusu lagið Skína með Prettiboitjokko sem Fiðringslagið 2024 og hann ásamt Gústa B mætti á svæðið og tryllti lýðinn í dómarahléinu.
Oddeyrarskóli lenti í öðru sæti.
Glerárskóli varð í þriðja sæti
Í dómnefnd sátu Marta Nordal fráfarandi leikhússtjóri, Ingunn Elísabet Hreinsdóttir dansari og kennari á sviðslistabraut MA og Guðmar Gísli Þrastarson fulltrúi ungmennaráðs Akureyrar.
Ný verðlaun voru kynnt til sögunnar í ár fyrir góða, skemmtilega eða óvænta notkun á íslenskunni og hlaut Oddeyrarskóli þau í ár. Sérlegur dómari fyrir þessa nýju viðurkenningu var Eyrún Huld Haraldsdóttir íslenskukennari í MA.
Helena Eydís Ingólfsdóttir varaformaður SSNE afhenti farandbikar Fiðrings en SSNE hefur tryggt fjármagn fyrir Fiðring næstu tvö árin.