FH í úrslit eftir sigur á Akureyri

Geir Guðmundsson skoraði fimm mörk fyrir Akureyri í kvöld.
Geir Guðmundsson skoraði fimm mörk fyrir Akureyri í kvöld.

FH tryggði sér sæti í úrslitum N1-deildar karla í handknattleik eftir sigur á Akureyri í kvöld, 28-25, í Höllinni fyrir norðan í fjórða leik liðanna í undanúrslitum. FH vann einvígið 3-1 og mætir HK í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn en þar hefur FH titil að verja. Gestirnir voru skrefinu á undan lengst af leik í kvöld og höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 14-12, og sigurinn sanngjarn. Leikurinn var hníjafn í byrjun og liðin skiptust á að hafa forystuna. Sóknarleikur FH gekk þó betur fyrir sig og gestirnir virtust minna hafa fyrir mörkunum, með þá Ragnar Jóhannsson og Ólaf Gústafsson í fararbroddi.

Staðan var jöfn, 8-8, þegar stundarfjórðungur var liðin af leiknum.  Akureyri lenti skömmu síðar í brottrekstra vandræðum og missti tvo menn útaf með skömmu millibili og FH komst þremur mörkum yfir. Daníel Freyr Andrésson var kominn í gang í marki FH og gestirnir komust fimm mörkum yfir, 13-8. Það var allt inni hjá FH á þessum tímapunkti. Akureyringar náðu hins vegar að laga stöðuna fyrir leikhlé en hálfleikstölur, 12-14, FH í vil.

FH skoraði fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og náðu fjögurra marka forystu. Akureyringum gekk erfiðlega að finna glufur á þéttum varnarmúr FH-inga og gestirnir juku muninn í fimm mörk, 23-18, þegar seinni hálfleikurinn var slétt hálfnaður. Ólafur Gústafsson lét vel til sín taka í sóknarleik FH þessar mínútur og skoraði að vild. Norðamenn voru hins vegar ekki að baki dottnir og með fulla höll á bak við sig tókst að saxa á forskotið og minnkuðu muninn í tvö mörk, 21-23, þegar tólf mínútur lifðu leiks og FH tók leikhlé.  Akureyringar minnkuðu muninn skömmu síðar í eitt mark og allt ætlaði um koll að keyra í húsinu. Sveinbjörn Pétursson markvörður Akureyrar var heldur vetur dottinn í gírinn og hlutirnir virtust vera að snúa heimamönnum í hag.  

Jafnt var í tölunum næstu mínútur og leikurinn æsispennandi en FH hafði frumkvæðið var alltaf einu skrefi  á undan. Ólafur Gústafsson gerði svo út um leikinn er hann skoraði 28 mark FH þegar ein mínúta var eftir og gestirnir náðu þriggja marka forystu. Tíminn einfaldlega of naumur fyrir Akureyringa og leiktíminn rann út.

Lokatölur, 25-28, FH í vil og Íslandsmeistararnir freista þess að verja titilinn.

Mörk Akureyrar: Hörður Fannar Sigþórsson 7, Bjarni Fritzson 5, Geir Guðmundsson 5, Heimir Örn Árnason 4, Oddur Gretarsson 4.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 15 (1), Stefán Guðnason 1.

Mörk FH: Ólafur Gústafsson 8, Ragnar Jóhannsson 7, Andri Berg Haraldsson 4, Baldvin Þorsteinsson 3, Hjalti Þór Pálmason 2 (1),  Atli Rúnar Steinþórsson 1 (1), Örn Ingi Bjarkarson 1, Ari Magnús Þorgeirsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 14.

Nýjast