Ferðamönnum fjölgar milli ára í Grímsey

Frá Grímsey
Frá Grímsey

„Ég er sátt við sumarið, ferðafólki hefur fjölgað jafnt og þétt hin síðari ár. Ég hef á tilfinningunni að það hafi verið  aukning á milli ára þó tölur liggi ekki fyrir,” segir Halla Ingólfsdóttir eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Trip í Grímsey. Veður hafi þó ekki endilega alltaf sýnt sínar bestu hliðar en það sama megi segja um aðrar staði á landinu.

Um 6000 farþegar af skemmtiferðaskipum komu í landi í Grímsey í sumar.  Raunar fleiri því margir úr áhöfnum skipanna brugðu sér einnig frá borði og skoðuðu dásemdir eyjarinnar. Hún segir að samfélagið muni um skipakomur, talsvert sé um að farþegar sæki veitingastaðinni heim, kaupi varning í gallerí og taki sér ferð með lestinni. „Það munar alveg um þetta í okkar samfélagi.“

Halla segir að einnig hafi talsverður fjöldi ferðalanga komið með ferjunni Sæfara og þá nýta margir sér áætlunarflug frá Akureyri og skjótast út í Grímsey. 

„Okkur þykir ánægjulegt hversu margir vilja koma til okkar og skoða eyjuna. Það er gaman að því hversu mikil eftirspurn er meðal Íslendinga að koma við hérna, við sjáum að þeim fjölgar alltaf á milli ára,“ segir Halla sem bíður eftir að sjá farþegatölur frá Vegagerð um fjölda farþegar með Sæfara og eins frá Norlandair sem sinnir áætlunarfluginu.

Styttri og lengri skoðunarferðir

„Það hefur verið aukning milli ára í komum ferðamanna og mér finnst við núna vera að ná svipuðum fjölda og var fyrir kórónuveiru, þannig að við erum bara nokkuð ánægð með stöðuna,“ segir Halla. Arctic Trip býður upp á ferðir um Grímsey og margir nýta sér það, en í boði er m.a. er ferð út að heimskautsbaug í boði  þar sem listaverkið Hringur og kúla stendur. Einnig er styttri ferð þar sem gengið er um íbúabyggðina og sagðar sögur af fólki og byggingum.

Ferjan ekki boðleg

Ferðamannatíðin hafi lengst í báðar áttir, ferðafólk sé fyrr á ferðinni á vorin komi lengra fram á haustið en áður var. „Það er enn að koma slatti af ferðafólki, aðallega með ferjunni, það eru nokkrir í hverri ferð og allt telur þetta.“ Halla bætir við að  fæstir hrópi húrra fyrir ferjunni sjálfri. Hún þykir  úr sér gengin og jafnvel hættuleg. Margoft hafa íbúar í Gímsey óskað eftir nýrri ferju en að sögn Höllu lítið hlustað á þá. „Það er bara ekki viðunandi lengur að bjóða upp á þessa ferju.“

Nýjast