Femínísk fræðikona og fjallageit
„Búmerang frá Akureyri gæti verið yfirskrift æviminninga minna,“ segir Bergljót og útskýrir betur: „Ég fæðist á Akureyri, en fjölskyldan býr síðan á Ísafirði fyrstu æviárin mín. Þá flytja þau aftur til Akureyrar þar sem ég bý til 14 ára aldurs, þegar foreldrar mínir flytja til Boulder í Colorado sem var afar dýrmæt reynsla sem gaf mér tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn.“ Bergljót flutti svo aftur til Akureyrar með fjölskyldunni og kláraði stúdentspróf við Menntaskólann á Akureyri.
Að menntaskóla loknum reyndi hún að slíta tengslin við Akureyri og flutti suður í mannfræðinám en saknaði fjallanna og fjölskyldunnar. „Ég átti nánast heima í Hlíðarfjalli frá 10 ára aldri og hafði alltaf verið mikið á skíðum sem endaði á því að ég vann á Skíðahótelinu. Þannig að veran í Reykjavík varð ekki löng og þegar ég kom aftur til Akureyrar fór ég í kennsluréttindanám við Háskólann á Akureyri og hóf vinnu við gamla grunnskólann minn, Lundarskóla, þar sem ég vann í um áratug.“
Árið 2008 hóf hún störf á Jafnréttisstofu eftir að hafa menntað sig í opinberri stjórnsýslu þar sem hún vann mikið með skólanum og sinnti jafnréttisfræðslu. „Það fannst mér gefandi og skemmtilegt, einnig var skýrt að kennarataugin kitlaði enn. Ég ákvað því að sækja mér frekara nám í menntavísindum sem varð að doktorsnemavegferð sem lauk haustið 2023, þannig að ég er nýhætt að vera háskólanemi. Árið 2020 hlaut ég lektorsstöðu við Háskólann á Akureyri og þar nýtast nú kraftar mínir í kennslu, rannsóknum og fleira,” segir Bergljót og segir starfsumhverfið vera frjótt og hressandi.
Jafnréttisgyllingin og jöfnunartækifærin sem felast í skólaumhverfinu
Bergljót hefur djúpan áhuga á hlutverki skóla sem jöfnunartækis. „Skólar eiga að vera staðir þar sem nemendur finna fyrir öryggi og virðingu óháð bakgrunni.“ Bergljót rannsakar náms- og félagslegar aðstæður nemenda og leggur áherslu á inngildingu allra, óháð kyni, kynhneigð, fötlun, menningarlegum bakgrunni eða öðrum þáttum. Hún sækir mest í smiðju femínískra kenninga þegar kemur að kennslufræðilegri nálgun: „Það er gagnrýnið sjónarhorn sem beinist að kerfislægum hindrunum og mögulegum tækifærum til breytinga.“
Nýleg rannsókn rannsóknarteymis sem Bergljót vinnur með beindist að stöðu láglaunakvenna í íslensku samfélagi. Í rannsókninni er spurt hvort samfélag sem kennir sig við jafnrétti og velferð standi undir nafni fyrir þær konur sem búa við erfiðari aðstæður. „Þrátt fyrir að Ísland tróni á toppi í keppninni um jafnréttisgullið og konur séu nú að verða áberandi í ákveðnum valdastöðum þá eru enn margar konur í íslensku samfélagi sem finna ekki fyrir jafnréttisgyllingunni,” útskýrir hún.
Kennir með hjartanu
Í kennslu leggur Bergljót áherslu á fjölbreytni og samtal við nemendur. Hún kennir námskeið í grunn- og framhaldsnámi í Kennaradeild og hefur einnig kennt námskeiðið sálræn áföll og ofbeldi í Heilbrigðisvísindadeild. „Ég kenni um skóla margbreytileikans þar sem megináhersla er á kennslufræði sem miðar að inngildingu allra nemenda í skólastarfi. Lengst hef ég þó kennt kynjafræði, jafnrétti og lýðræði í skólastarfi og efnisþættir þessara tveggja námskeiða tengjast mínu rannsóknarsviði hvað mest.“
Bergljót leggur mikið upp úr fjölbreyttum verkefnum og hvetur stúdenta til að finna fjölbreyttar leiðir til að miðla þekkingu og hafa þeir því töluvert val þegar kemur að verkefnavinnu. „Ég hef unnið með þó nokkrum stúdentum sem eru að ljúka grunn- eða framhaldsnámi en það samstarf er líka mjög gefandi og vekur upp ýmsar hugmyndir að þróun vinnulags í kennaranámi, þannig að stúdentar gefa heilmikið af sér sem er eiginlega kjarninn í því að ég þrói enn frekar mína kennsluhætti og starfskenningu,“ segir Bergljót um hvernig starfið sé sífellt að þróast í takt við samfélagið. Hún bætir við: „Skemmtilegast finnst mér samt að hitta stúdenta í staðlotum því þá verður til þetta virka samtal um nám og kennslu, stúdentar hafa oft víðtæka reynslu og mjög ólíkan bakgrunn sem er nauðsynleg forsenda þess að umræður verði frjóar, djúpar og gefandi. Í lotunum kynnast þeir hver öðrum og það verður til námsamfélag sem er svo mikilvægt og getur virkað mjög valdeflandi. Nemendur vinna ýmis verkefni í sameiningu og afrakstur þeirra verður oftar en ekki eitthvað sem þau síðan nýta sér í sínum störfum á vettvangi.“
Tengir menntavísindin vettvanginum
„Áhugi minn liggur í menntavísindum og mannfræði sem sýnir sig í vali í doktorsrannsókninni þar sem ég nýtti mannfræðilegar rannsóknaraðferðir og ég hef mikinn áhuga á að nýta þær til að dýpka þekkingu okkar á starfsháttum og þátttöku nemenda. Efst er mér í huga hvernig megi tengja menntarannsóknir og menntavettvanginn betur saman,“ segir Bergljót aðspurð um hvað hún sjái fyrir sér til framtíðar á vettvangi vinnunnar. Hún útskýrir betur: „Það fer fram virkilega frjótt og metnaðarfullt starf í skólum á öllum skólastigum og mikilvægt að koma þeirri vinnu á framfæri í samfélaginu. Að sama skapi eru framkvæmdar mikilvægar rannsóknir á námi og kennslu, líðan kennara og nemenda, tækifærum og áskorunum í skólasamfélaginu. Tenging og brúun á milli þessa getur leitt til enn frekari þróunar starfshátta á vettvangi ásamt því að efla rannsóknir.“
„Ég er samt ekki alltaf í vinnunni og ég sæki mikið í að verja tíma með litla ömmustráknum mínum sem býr í Óðinsvéum, með fjölskyldu og vinum hvort sem er í matarboðum, á ferðalögum eða á fjöllum,“ segir Bergljót að lokum þar sem hún setur upp heyrnartólin til að hlusta á Joni Mitchell og Brandi Carlile með uppáhaldslagið hennar A case of you þessi misserin. Hvert hún er að fara er óvíst, út í náttúruna að kúpla sig út, á listasýningu eða upp á fjall.