Félagsmenn vilja aukinn kaupmátt og hann sé tryggður

mth@vikubladid.is

„Lífið er ekkert auðvelt og þetta stríð mun koma til með að gera launafólki erfiðara fyrir. Verðbólga mun aukast, vextir munu hækka og allt verðlag fylgir með. Það verður kjararýrnun og spurning hvað hún verður mikil,“ sagði Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju á aðalfundi félagsins. Undirbúningur er í fullum gangi vegna kjarasamninga en þeir verða lausir á almenna markaðnum á komandi hausti og hjá ríki og sveitarfélögum á næsta ári.  Kröfugerð félagsins verður tilbúin í lok apríl.

Björn segir ríkan vilja til þess meðal félagsmanna Einingar Iðju að semja á þann veg að út úr næstu samningum komi aukinn kaupmáttur og að það yrði gert með því að hækka laun í krónutölu. „Það er líka ljóst að menn vilja ræða vinnutímastyttinguna en þar þarf ýmislegt að laga,“ segir hann en m.a. þurfi að semja um breytingar á útfærslum. „Það verður ekki samþykkt að þetta verði eins og tilraunaverkefnið sem lagt var upp með.“

Björn segir að í könnun sem gerð var meðal félagsmanna um hvað þeir vilja sá í næstu kjarasamningum hafi komið fram aldurtengd viðhorf gagnavart kröfum á ríkið. Þeir eldri vilji hækka skattleysismörkin á meðan þeir yngri vilja aukinn möguleika á að eignast húsnæði. Einnig horfði sá hópur til hærri barnabóta.

„Í mínum huga eigum við að fara fram með fáar kröfur en markvissar. Ég tel það vænlegra til árangurs. Það gefur okkur tækifæri á að standa fastar á okkar kröfum en ef þær eru of margar,“ segir Björn.

Nýjast