Félagarnir Jón og séra Jón

Sindri Kristjánsson.
Sindri Kristjánsson.

Skipulagsmál á Akureyri. Hvað er hægt að segja? Eitt leiðarstef virðast þau þó eiga. Það er regla frekar en ekki að þau eru umdeild. Baldurshagi, Dalsbraut, Austurbrún, Oddeyrin, nýtt miðbæjarskipulag og svo má lengi telja. Allt eru þetta dæmi um skipulagsmál á Akureyri þar sem deilur hafa náð hæstu hæðum. Þá má ekki gleyma háværum mótbárum íbúa á ýmsum svæðum þegar lagðar eru fram tillögur um uppbyggingu á íbúa- og þjónustuúrræðum fyrir þá sem minna mega sín í okkar samfélagi.

En það er líka bara ágætt. Okkur á ekki að vera sama hvernig bærinn okkar þróast og við eigum að hafa á því skoðanir. Nærumhverfi okkar er það sem við höfum fyrir augunum hvern dag og þar sem við lifum og hrærumst. Samtöl og rökræður um ólíka kosti, breytingar eða engar breytingar eru eðlilegur þáttur þess að búa í lýðræðissamfélagi. En sem lýðræðissamfélag höfum við líka sett okkur ákveðnar grunnleikreglur. Þessar reglur hafa það m.a. að markmiði að tryggja sanngirni, gagnsæi og fyrirsjáanleika. Ólíkt skipulagsmálunum á Akureyri þá ríkir sátt um þessar reglur og við sem borgarar þessa lands göngum út frá því að stjórnvöld, ríki og bæir, leiki eftir þeim.

Það er því þyngra en tárum taki að sjá nýlega ráðstöfun meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar í málinu um Tónatröð. Ekki vegna kynntra áforma um byggingamagn, hæð húsa, áhrif á rótgróna götumynd eða annað í þeim dúr. Umrædd áform eru enn á fullkomnum byrjunarreit og ber að skoðast sem slík. Það sem er sorglegt í málinu er að horfa upp á meirihluta bæjarstjórnar ákveða að úthluta verðmætum sem við bæjarbúar teljum okkur sameiginlega eiga í algeru trássi við áður nefndar leikreglur samfélagsins. Eins og fram hefur komið telur umræddur meirihluti réttlætanlegt að úthluta til eins aðila lóðum í eigu bæjarins þegar fyrir rétt þremur árum slíkri lóðaúthlutun til annars aðila var hafnað. Málsatvik og aðstæður í þessum tveimur málum eru svo gott sem algjörlega sambærileg. Okkar títtnefndu leikreglur samfélagsins, reglur sem tryggja eiga bæði jafnræði og gagnsæi, hafa einfaldlega verið settar til hliðar af nefndum meirihluta sem myndast hefur í bæjarstjórn Akureyrar um þetta tiltekna mál. Þeir félagar Jón og séra Jón koma hér aldeilis upp í hugann.

Í íþróttakappleik er ráðgert að leikmenn takist á og að við lok leiks standi annað liðið upp sem sigurvegari. En á meðan leik stendur er líka ráðgert að leikið sé eftir reglum leiksins. Það er ekki mikill sómi í því að bera sigur úr býtum í kappleik hafandi hundsað leikreglurnar.

-Höfundur er Akureyringur, eiginmaður, pabbi og fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulagsráði Akureyrarbæjar

Nýjast