Færri skurðaðgerðir vegna álags af völdum Cóvid
mth@vikubladid.is
Skurðaðgerðum hefur fækkað á Sjúkrahúsinu á Akureyri á tímabilinu janúar til mars á þessu ári og er helsta skýringin þar álag vegna Covid-19 en draga þurfti úr þjónustu vegna álags því tengt og manneklu. Þetta kemur fram á vef SAk þar sem fjallað er um tölur úr starfseminni.
Þar kemur fram að fjöldi fæðinga helst nokkurn veginn í stað milli ára en á fyrstu þremur mánuðunum hafa 109 einstaklingar litið dagsins ljós.
Fjöldi dvalardaga á þessu tímabili er 6575, meðalfjöldi legudaga er 5,4. Flestir sjúklinganna eru lagðir inn í bráðainnlögn en þær eru 79% af heildarinnlögnum. Að meðaltali liggja þrír sjúklingar inni á hverjum tíma sem eru búnir í meðferð og bíða eftir endurhæfingu eða plássi á hjúkrunarheimili.
Tæplega 4500 einstaklingar hafa fengið þjónustu á göngudeild og þar af rúmlega 500 vegna krabbameinslyfjagjafar en það er um 15% meira en árið áður. Á bráðamóttöku eru komur rúmlega 4600 sem er örlítið minna en á sama tíma í fyrra. Biðtími eftir því að hitta lækni á bráðamóttöku er um 40 mínútur sem er innan þeirra viðmiða sem SAk setur sér.