Eru Mærudagar barn síns tíma?
Leiðari úr 7. tölublaði Vikublaðsins
Egill P. Egilsson skrifar
Nýársheit eru sífellt að verða vinsælli á Íslandi og snúast þau oftar en ekki að hollustu; minna sælgætisáti, minni áfengisdrykkju, nú eða bara almennt um betri lífstíl. Í dag er árið nú þegar komið nógu vel á veg til þess að flestir séu löngu búnir að gleyma sínum nýársheitum og búnir að þverbrjóta þau.
Þó er ekki útilokað að Húsvíkingar séu nú að velta fyrir sér að minnka mæruna á árinu og máske til frambúðar.
Íbúar segi skoðun sína
Norðurþing gaf það nýlega út að Þann 28. febrúar nk. verður íbúafundur í Stjórnsýsluhúsinu á Húsavík þar sem Mærudagar og framtíð þeirra verða til umræðu. Þessi bæjarhátíð Húsvíkinga hefur verið við líði með ýmsu sniði í 29 ár en í apríl 1994 voru Mærudagar fyrst haldnir á Húsavík sem eins konar uppskeruhátíð lista- og menningarlífs í sumarbyrjun. Tveimur árum síðar var tímasetning hátíðarinnar færð fram í júní og hún tengd við Jónsmessu. Hátíðinni hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár og hátíð sem upphaflega var lítil krúttleg bæjarhátíð, sérsniðin að bæjarbúum og brottfluttum hefur orðið sífjölsóttari. Hátíðin hefur sest sig í sessi síðustu helgi í júlí og dregur að sér fjölda gesta.
Mörgum hefur þótt nóg um, og sakna litlu bæjarhátíðarinnar enda fátt sem þjappar Húsavíkingum meira saman en einmitt Mærudagar. Þá hafa Mærudagar verið vinsælt tilefni brottfluttra til að heimsækja heimabæinn sinn og algengt er að bekkjarmót og aðrir álíka viðburðir séu haldnir þessa helgi.
Ýmsar raddir hafa heyrst í bænum allra síðustu ár um hátíðina, bæði jákvæðar og neikvæðar. Auðvitað eru margir sem vilja halda í hefðina með svipuðu sniði og þróunin hefur verið síðustu ár. Að halda áfram að laða í bæinn þúsundir gesta þar sem helsta agnið eru landsþekktir tónlistarmenn sem troða upp á bryggjutónleikum. Það er gott mál.
Stór útihátíð eða krúttleg bæjarhátíð
Þær raddir að hátíðin sé orðin allt of stór í sniðum verða þó háværari með hverju árinu og vill sumt fólk hverfa aftur til krúttlegu bæjarhátíðarinnar eða jafnvel leggja hana alfarið niður. Þessa helgi kjósa enda margir Húsvíkingar að láta sig hverfa úr bænum. Sorglegast er líklega það að erfiðara hefur orðið að fá íbúa til að taka þátt með sama hætti og áður, þ.e. að skreyta hús sín í hverfislitunum og taka þátt í hverfispartýjum.
Ég ætla ekki að halda því fram að veitingamönnum sé illa við hátíðina en það ætti að vera flestum ljóst að síðasta helgin í júlí er háannatími veitingastaða og annarra ferðaþjónustu aðila þar sem bærinn er fullur af ferðamönnum fyrir. Fjölsótt útihátíð eykur enn á álag á þjónustuaðila og það væri eflaust góð hugmynd að skoða það að færa hátíðina á helgi þar sem minna er að gera hjá ferðaþjónustunni. Það yrði bara til þess að dreifa innkomunni inn í húsvíska hagkerfið og jafnvel auka það.
Hvenær eiga Mærudagar að vera?
Þá er bara spurningin hvenær er best að halda hátíðina ef núverandi tímasetning er ekki ákjósanleg. Hugmyndir hafa heyrst um að færa hana fram í september og þá hefur sjómannadagshelginni verið kastað fram… já eða fiskaradagshelgin!
Svo hefur einnig komið til tals á kaffistofunum að sauma Mærudaga við Eurovision helgina í maí enda Húsavík frægur Eurovisionbær.
Hvað sem verður ofaná, þá gefst Húsavíkingum kostur á að svara könnun á vef Norðurþings um framtíð Mærudaga og ræða hana ennfrekar á íbúafundi 28. febrúar nk. kl. 16:30
Vonandi nýta Húsvíkingar tækifærið og tjá skoðanir sínar, Mærudögum til heilla.
Egill P. Egilsson