Er ekki tími til kominn að tengja?
Framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarið við stækkun þekkingarsetursins á Húsavík, undir forystu Þekkingarnets Þingeyinga (ÞÞ). Langanes ehf. festi á síðasta ári kaup á Hafnarstétt 1 af Steinsteypi ehf. en fyrir átti Langanes núverandi húsæði ÞÞ að Hafnarstétt 3.
Í dag hófust framkvæmdir við lokaáfanga stækkunarinnar þegar gröfur byrjuðu að grafa fyrir tengibyggingu sem verður úr glereiningum.
Með stækkuninni verður til ein heild úr núverandi húsnæði að Hafnarstétt 3 og yfir í neðri hæð Hvalasafnsins að hafnarstétt 1, með viðbyggingu á milli. Hönnuður í verkefninu er Arnhildur Pálmadóttir arkítekt. Aðalinngangur verður um þessa glerviðbyggingu, en samanlagt verður húsnæðið um 1000 fermetrar. Frá opnun verður þarna um 30 manna vinnustaður, með fleira starfsfólk á álagstímum. Sannkallaður suðupottur þekkingar og nýsköpunar.
Nú þegar hefur Hraðið Nýsköpunarmiðstöð verið tekin í notkun að hluta í nýja húsnæðinu en húsnæðið verðu formlega tekið í notkun með vorinu þegar Fab-Lab smiðja Húsavíkur opnar.
Auk starfsmanna ÞÞ verða Náttúrustofa Norðausturlands, SSNE og Rannsóknasetur Háskóla Íslands með fastar starfsstöðvar í húsinu og þá bætist Hvalasafnið einnig við en starfsfólk þess verður með matar- og kaffiaðstöðu í húsinu og með aðgang að fundarsölum, Fab- labinu, Hraðinu og sérfræðingum innanhúss.